Kona á tí­ræðis­aldri slasaðist al­var­lega þegar gert var dyra­at á heimili hennar í upp­hafi viku. Lög­reglu hafa borist fjöl­margar til­kynningar undan­farið um ó­venju­lega harka­leg dyra­öt sem virðast vera í tísku á mynd­bands­for­ritinu TikTok. Vísir greinir frá.

Fyrr í vikunni var konan, sem er rúm­lega ní­ræð, flutt á bráða­mót­töku Land­spítala vegna ökkla­brots. Við skoðun kom í ljós að konunni hafði orðið svo bylt við dyra­at á heimili sínu að hún datt, með áður­nefndum af­leiðingum.

Ekki var um neitt venju­legt dyra­at að ræða heldur ný­stár­lega út­gáfu af þessum gamla hrekk. Frétta­stofa Stöðvar 2 hefur fjallað um dyra­öt sem þau kalla „bylgju af ó­látum sem riðið hefur yfir í Vestur­bæ og á Sel­tjarnar­nesi.“ Að sögn þeirra hefur bylgjan breitt úr sér og er orðin vandi í nærri því öllum hverfum höfuð­borgarinnar.

Í mynd­bandi sem Vísir birti má sjá hvar fjórir drengir ráðast á úti­dyra­hurð í fjöl­býlis­húsi með þeim af­leiðingum að hurðin brotnar. Skömmu síðar birti sami notandi mynd­band af sér og vinum sínum á lög­reglu­stöð og sagði ein­hvern hafa klagað hann og sam­verka­menn hans.

Sam­kvæmt upp­lýsingum frétta­stofu voru piltarnir þó ekki kallaðir til lög­reglu, sem bendir til að heim­sókn þeirra þangað kunni í raun að vera svið­sett.

Þær upp­lýsingar fengust þó að á síðustu dögum hafa tvö dæmi um dyra­öt verið til­kynnt til lög­reglu, án þess að vera tekin sér­stak­lega til rann­sóknar. Ekki liggur fyrir hvort lög­regla hafi mál konunnar sem ökkla­brotnaði til rann­sóknar.