Þýskur grunnskólakennari sem komin er á eftirlaun og er 75 ára, er í haldi lögreglunnar í Þýskalandi, en hún er grunuð um að hafa verið að skipuleggja hryðjuverkaárás gegn þýskum stjórnmálamönnum og orkuverum. The Guardian greinir frá.
Konan, sem hefur einungis verið nafngreind sem Elizabeth R vegna þýskra laga, var handtekin á heimili sínu í þýska sambandslandinu Saxlandi en hún er talin hafa verið heilinn á bak við ráðabruggið.
Markmið hópsins hennar, sem kennir sig við öfga-hægri hugmyndafræði, var að ræna stjórnmálamönnum og gera árásir á orkuver sem myndi síðan valda rafmagnsleysi víða um Þýskaland. Enn er óvíst hversu nálægt hópnum var að takast markmið sitt.
Í apríl höfðu fjórir menn úr hópnum verið handteknir en þeir höfðu í för með sér mikið af vopnum, þeir höfðu að auki reynt að fá aðgang að sprengiefni.