Á­stæða þess að Gunnar Örn Jóns­son, lög­reglu­stjóri á Vestur­landi, féll frá því að sækja fimm­menninganna í yfir­kjör­stjórn Norð­vestur­kjör­dæmis til saka fyrir dómi eftir talningar­klúðrið síðast­liðið haust er laga­breyting sem tók gildi í upp­hafi þessa árs. Spurningar vakna hvort engin inn­sigils­skylda ríki um kjör­gögn ef gengið yrði til þing­kosninga á morgun.

Oftast sleppa sak­borningar frá vægari refsingu með því að greiða sektir frá lög­reglu en ef Ingi Tryggva­son for­maður yfir­kjör­stjórnar í Borgar­nesi og aðrir í yfir­kjör­stjórn hefðu greitt sektar­boðið sem lög­reglu­stjórinn sendi með­limum yfir­kjör­stjórnarinnar eftir rann­sókn fyrir ára­mót, hefði málinu lokið.

Fimm­menningarnir kusu hins vegar að greiða ekki sektirnar. Því horfði í fyrir nokkrum vikum að kjör­stjórnar­fólkið yrði sótt til saka fyrir dómi en þá varð snúningur á málsundir­búningi lög­reglu­stjórans.

Snúningurinn fólst í því að þótt sak­borningum málsins hefði verið gefið að sök að hafa eftir talningu at­kvæða í Norð­vestur­kjör­dæmi, ekki sett kjör­seðla undir inn­sigli, þegar talningar­staður var yfir­gefinn að morgni sunnu­dagsins 26. septem­ber síðast­liðinn, tóku ný kosninga­lög gildi 1. janúar síðast­liðinn. Rök lög­reglu­stjóra­em­bættisins eru þau að ekki sé fjallað með jafn skýrum hætti um skyldu til að inn­sigla kjör­gögn í nýju lögunum líkt og var í lögunum sem giltu um fram­kvæmd kosninganna síðast­liðið haust. Reyndar er ekki með beinum hætti fjallað um skyldu til inn­siglunar kjör­gagna að lokinni talningu í gildandi kosninga­lögum.

Í al­mennum hegningar­lögum kemur fram að hafi refsi­lög­gjöf breyst eftir að verknaður var framinn, eigi að dæma eftir nýju lögunum. Þar sem ekki er fjallað með beinum og skýrum hætti um skyldu til að inn­sigla kjör­gögn að lokinni talningu í nýju kosninga­lögunum, ó­líkt því sem var í eldri lögum, taldi lög­reglu­stjóri vafa til staðar um refsi­næmi ætlaðs brots sak­borninga. Þann vafa beri að túlka sak­borningum í hag með vísan til megin­reglu.

Með hlið­sjón af framan­greindu komst lög­reglu­stjóri að þeirri niður­stöðu að það sem fram hefði komið við rann­sókn málsins dygði ekki til sak­fellingar. Því er málið fellt niður en stórar spurningar sitja eftir.