Ástæða þess að Gunnar Örn Jónsson, lögreglustjóri á Vesturlandi, féll frá því að sækja fimmmenninganna í yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis til saka fyrir dómi eftir talningarklúðrið síðastliðið haust er lagabreyting sem tók gildi í upphafi þessa árs. Spurningar vakna hvort engin innsigilsskylda ríki um kjörgögn ef gengið yrði til þingkosninga á morgun.
Oftast sleppa sakborningar frá vægari refsingu með því að greiða sektir frá lögreglu en ef Ingi Tryggvason formaður yfirkjörstjórnar í Borgarnesi og aðrir í yfirkjörstjórn hefðu greitt sektarboðið sem lögreglustjórinn sendi meðlimum yfirkjörstjórnarinnar eftir rannsókn fyrir áramót, hefði málinu lokið.
Fimmmenningarnir kusu hins vegar að greiða ekki sektirnar. Því horfði í fyrir nokkrum vikum að kjörstjórnarfólkið yrði sótt til saka fyrir dómi en þá varð snúningur á málsundirbúningi lögreglustjórans.
Snúningurinn fólst í því að þótt sakborningum málsins hefði verið gefið að sök að hafa eftir talningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi, ekki sett kjörseðla undir innsigli, þegar talningarstaður var yfirgefinn að morgni sunnudagsins 26. september síðastliðinn, tóku ný kosningalög gildi 1. janúar síðastliðinn. Rök lögreglustjóraembættisins eru þau að ekki sé fjallað með jafn skýrum hætti um skyldu til að innsigla kjörgögn í nýju lögunum líkt og var í lögunum sem giltu um framkvæmd kosninganna síðastliðið haust. Reyndar er ekki með beinum hætti fjallað um skyldu til innsiglunar kjörgagna að lokinni talningu í gildandi kosningalögum.
Í almennum hegningarlögum kemur fram að hafi refsilöggjöf breyst eftir að verknaður var framinn, eigi að dæma eftir nýju lögunum. Þar sem ekki er fjallað með beinum og skýrum hætti um skyldu til að innsigla kjörgögn að lokinni talningu í nýju kosningalögunum, ólíkt því sem var í eldri lögum, taldi lögreglustjóri vafa til staðar um refsinæmi ætlaðs brots sakborninga. Þann vafa beri að túlka sakborningum í hag með vísan til meginreglu.
Með hliðsjón af framangreindu komst lögreglustjóri að þeirri niðurstöðu að það sem fram hefði komið við rannsókn málsins dygði ekki til sakfellingar. Því er málið fellt niður en stórar spurningar sitja eftir.