Metfjöldi skemmtiferðaskipa kemur til landsins á næsta ári og fjölgar um nærri þrjú hundruð frá því í ár. Helstu hafnir eru þegar uppseldar einhverja daga á næsta ári. Ekkert lát er þó á bókunum.
Fjöldi skemmtiferðaskipa sem væntanlegur er á næsta ári til þeirra þriggja hafna hér á landi sem þjónusta flestu fleyin af því tagi, í Reykjavík, á Ísafirði og Akureyri, nálgast nú átta hundruð. Fjölgunin frá því í ár verður ekki minni en sextíu prósent.
Samtals komu 478 skemmtiferðaskip til þessara hafna í ár, en þegar hafa forkólfar 763 skipa pantað þar hafnarlegu á næsta ári – og sér ekki fyrir endann á bókunum.
„Það er orðið uppselt hjá okkur einhverja daga á næsta ári,“ segir Gunnar Tryggvason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, en fyrir vikið gætu einhver skip þurft að liggja við festar á ytri höfninni.
Hann segir 180 skip hafa lagst við Gömlu höfnina og Skarfabakka í ár, en þegar hafi 270 verið bókuð á næsta ári. Tekjur af þjónustunni fari úr 700 milljónum í ár yfir á annan milljarð á næsta ári.

„Ástæða þessa uppgangs er þríþætt, stóri markaðurinn í Karíbahafi er löngu mettaður, Úkraínustríðið hefur lokað fyrir demantinn í Eystrasaltssiglingum, sem er Pétursborg í Rússlandi, og svo er ný og ferðavön kynslóð að uppgötva töfra norðurslóða,“ útskýrir Gunnar.
Pétur Ólafsson, hafnarstjóri Hafnarsamlags Norðurlands, bætir því líka við að Asíumarkaðurinn í siglingum af þessu tagi hafi gefið eftir. Á því græði norðurslóðir. Og hann getur ekki kvartað yfir vextinum á milli ára. „Við förum úr 180 skipum í ár í minnst 280,“ segir hann, en gnoðin nyrðra liggja jöfnum höndum við kajann á Akureyri, Hrísey og Grímsey.
„Þessum skipum hefur einna mest fjölgað í Hrísey, en allt að sextíu minni skip hafa boðað komu sína þangað á næsta ári,“ segir Pétur og áætlar að tekjur af skipakomunum nyrðra á næsta ári nálgist milljarðinn.
Sami uppgangur er á Vestfjörðum. Guðmundur Magnús Kristjánsson, sem klárar áratugalanga hafnarstjóravaktina sína í næsta mánuði, man ekki annað eins. „Við erum að auka viðlegurýmið hérna á utanverðri eyrinni um helming,“ bendir hann á – og veitir ekki af. Ekki færri en 213 skip verða bundin við ísfirskar landfestar árið 2023, en voru 118 í ár.
„Tekjuaukning hafnarsjóðs verður veruleg, fer úr helmingi af tekjum hans í minnst sjötíu prósent,“ segir Guðmundur.