Frá og með morgun­deginum 27. febrúar hefst akstur Flug­rútunnar á ný. Sam­göngu­stofa hefur gefið út nýjar leið­beiningar vegna komu­far­þega til landsins og sam­kvæmt henni mega komu­far­þegar nýta sér þjónustu flug­rútunnar.

„Undan­farna daga hefur verið um­ræða um mikil­vægi þjónustu Flug­rútunnar fyrir komu­far­þega til að lág­marka hættuna á að smit berist inn í sam­fé­lagið. Við höfum því tekið á­kvörðun um að hefja akstur Flug­rútunnar á ný“, segir Björn Ragnars­son, fram­kvæmda­stjóri Kynnis­ferða.

Hann segir að undan­farna daga hafi þau átt í sam­ráði við opin­bera aðila til að út­færa þjónustuna með til­liti til sótt­varna og að hún sé nú í sam­ræmi við gildandi reglu­gerð.

„Einnig höfum við haft sam­ráð við Isavia um að koma á fram­færi upp­lýsingum til komu­far­þega um þá val­kosti sem standi þeim til boða til að komast til Reykja­víkur. Við bindum því vonir við að komu­far­þegar nýti sér þjónustu okkar svo hægt verði að halda henni gangandi,“ segir Björn.

Kynnis­ferðir hafa þjónu­stað flug­far­þega frá árinu 1979.

„Þetta í fyrsta sinn sem þjónusta okkar hefur fallið niður á þessum rúm­lega 40 árum og því virki­lega gleði­legt að koma henni aftur í gang.“ Segir Björn en þjónustan hefur legið niðri frá því um miðjan janúar vegna lítillar notkunar komu­far­þega.

Flug­rútan þjónustar að sögn Björns allar lendingar um Kefla­víkur­flug­völl. Flug­rútan mun stoppa við Fjöru­kránna í Hafnar­firði, við Aktu Taktu í Garða­bæ, við Hamra­borg í Kópa­vogi og á BSÍ. Á BSÍ er fjöldi gjald­frjálsra bíla­stæða og hægt er að skilja eftir bíl­lykla í sér­stökum skápum gegn vægu gjaldi.

„Við ætlum að sinna komu­far­þegum. Það hefur verið um­ræða um að fólk sé að sækja að­stand­endur upp á völl og sé að brjóta sótt­kví og þarna erum við með lausn á því,“ segir Björn að lokum.