Sótt­varnar­reglur taka breytingu á mið­nætti með þeim hætti að fólk sem kemur til landsins frá há­á­hættu­svæðum þurfa ekki lengur að dvelja í sótt­varnar­húsi meðan það er í sótt­kví. Allir komu­far­þegar til landsins geta frá og með morgun­deginum valið að fara í heima­sótt­kví.

Gylfi Þór Þor­steins­son, for­stöðu­maður sótt­varnar­húsa, segir hins vegar í sam­tali við RÚV að þeir sem koma til landsins í dag og kvöld frá rauðum löndum þurfa að dvelja fimm daga á sótt­kvíar­hóteli.

Sótt­kvíar­hótelin verða hins vegar opin og ó­keypis í tvær vikur til við­bótar í hið minnsta sam­kvæmt Gylfa.

„Þeir sem koma áður en þessi reglu­gerð tekur gildi þeir klára sitt hjá okkur. En hvað þetta þýðir svo í fram­haldinu það á eftir að koma í ljós. Lík­lega verður ein­hver fækkun á gestum hjá okkur á næstu dögum,“ segir Gylfi Þór í sam­tali við RÚV.

Um þrjú hundruð manns dvelja á sótt­kvíar­hótelunum um þessar mundir.

Sex innan­lands­smit greindust í gær og þar af eitt utan sótt­kvíar. Þrjú innan­lands­smit greindust einnig í fyrra­dag og aftur var eitt smit utan sótt­kvíar.