„Þau voru á sandinum seinnipartinn á mánudaginn samkvæmt þeim gögnum sem við höfum, það er það sem við vitum, “ segir Grímur Hergeirsson, starfandi lögreglustjóri á Suðurlandi í samtali við Fréttablaðið.
Grímur segir að lögreglan bíði nú eftir að krufning fari fram til þess að hægt verði að staðfesta dánarorsök. Lögreglan á Suðurlandi fékk tilkynningu um líkfundinn rétt fyrir hádegi í gær en lík konunnar fannst skammt frá göngustíg að flugvélarflakinu á Sólheimasandi. Lík mannsins fannst um klukkan 14:00 um 150 metrum frá þeim stað sem konan lá. Þau voru fædd árið 1999 og 1997.
Beðið eftir að krufning fari fram
„Við erum í raun bara að bíða eftir að krufning fari fram og það er stefnan að það fari fram eftir helgina. Þá fyrst fáum við staðfestingu á dánarorsök en eins og komið hefur fram er allt sem bendir til þess að þau hafi lent í slæmu veðri og orðið úti, frosið úr kulda. Við höfum verið að reyna að finna út ferðir þeirra frá því að þau komu til Íslands og á hvaða tímapunkti þau hafa verið á sandinum,“ segir Grímur.
Aðstandendur parsins koma til landsins um helgina. Kínverska sendiráðið hefur annast samskipti við aðstandendur ungmennanna og tilkynnti þeim um fráfallið.