Björgunar­sveitir á Suður­landi voru kallaðar út á sjöunda tímanum í gær­kvöldi vegna konu sem var á göngu á Kattar­hryggjum í Þórs­mörk. Konan var á göngu með hópi fólks og var orðin ör­magna og orku­laus og gat ekki haldið göngu á­fram.

Í skeyti frá Slysa­varna­fé­laginu Lands­björg kemur fram að nokkur erill hafi verið hjá björgunar­sveitum um helgina.

Á laugar­dag komu sjálf­boða­liðar björgunar­sveitanna öku­mönnum fjögurra bíla til að­stoðar sem höfðu fest bíla sína á há­lendi og í ám. Í Hólms­á á fjalla­baki og Þrí­hyrnings­á á Austur­landi höfðu öku­menn fest bíla sína, á Sprengi­sands­leið var bíll fastur í leðju og björgunar­sveitar­fólk flutti far­þega úr biluðum bíl á Hlöðu­fells­vegi á Suður­landi.

Þá var nokkuð var um að að­stoða þurfti sjúkra­flutninga­menn við að flytja slasaða ein­stak­linga, til dæmis við Svar­ta­foss, Snæ­fells­jökul og Stór­höfða í Vest­manna­eyjum.

Snemma morguns í gær voru kaldir og hraktir göngu­menn sóttir í Kistu­fells­skála og þeim komið til byggða og eftir há­degi kom björgunar­sveitar­fólk bónda til að­stoðar við að reka hjörð af naut­gripum fyrir Tungu­fljót.