Norska öryggislögreglan setti upp faldar myndavélar í grennd við heimili Tor Mikkel Wara, fyrrum dómsmálaráðherra Noregs, og sambýliskonu hans, Leilu Anitu Bertheussen, án þeirrar vitneskju. Bertheussen var í gær handtekin af öryggislögreglunni, grunið um að hafa vísvitandi kveikt í bíl þeirra sunnudaginn. Wara steig tímabundið til hliðar sem ráðherra dómsmála og innflytjendamála í kjölfarið.

Sjá einnig: Dóms­mála­ráð­herra Noregs stígur til hliðar

Töluvert hefur verið fjallað um hjónaleysin síðasta hálfa árið en lögreglan hefur rannsakað fimm ólík skemmdarverk á heimili þeirra síðan í desember. Þar hefur meðal annars verið spreyjað á hús þeirra og flaska með eldfimum vökva fest við bíl þeirra. Þeim hefur einnig borist hótunarbréf. Ekki hafði tekist að hafa upp á sökudólgunum en síðastliðinn sunnudag var  kveikt í bíl þeirra og þá fór boltinn að rúlla.

Samkvæmt heimildum norska dagblaðsins Verden gang setti lögreglan upp faldar myndavélar í grennd við heimili Bertheussen og Wara án þeirra vitneskju. Samkvæmt frétt VG er myndbandsupptaka úr myndavélinni mikilvægt sönnunargagn gegn Bertheussen, en fyrrum dómsmálaráðherrann var ekki heima þegar kveikt var í bílnum. „Okkur grunar að sakborningurinn hafi sjálf kveikt eldinn og reynt að láta líta út fyrir að íkveikjan hafi verð sök eins eða fleiri óþekktra brennuvarga,“ sagði yfirmaður öryggislögreglunnar á blaðamannafundi í gær. 

Lögregla rannsakar íkveikjuna í samhengi við önnur skemmdarverk unnin á heimili þeirra hjóna síðasta hálfa árið. Húsleit fór fram á heimili þeirra í Osló í gær þar sem meðal annars var lagt hald á heimilistölvu og prentara.