Fimmtudaginn síðastliðinn komst það upp að óprúttnum aðila tókst að safna kennitölum og forsíðumyndum 422 nemenda í 96 skólum í sveitarfélögum um allt land á Íslandi. Notandinn var skráður inn á skólaupplýsingakerfið Mentor og gat hann sótt upplýsingarnar vegna veikleika í kerfinu.
Um leið og málið komst upp brugðust hugbúnaðarsérfræðingar Mentor við og hefur veikleikanum þegar verið eytt og öryggi kerfisins tryggt að því er segir í tilkynningu frá Mentor.
Jafnframt hefur sveitarfélögum, persónuverndarfulltrúum sveitarfélaga og skólastjórum allra skóla hér á landi verið gerð grein fyrir upplýsingasöfnuninni, einnig skólum þeirra nemenda sem upplýsingum var ekki safnað um.
„Hjá Mentor er málið litið mjög alvarlegum augum enda eiga notendur að geta treyst því að allar upplýsingar í kerfinu séu öruggar,“ segir í tilkynningunni.
Hugbúnaðarsérfræðingar hafi skoðað ofan í kjölinn hvernig hægt var að nálgast upplýsingarnar og gert viðeigandi ráðstafanir til að tryggja öryggi kerfisins enn frekar.
Sannreynt hafi verið að ekki var um að ræða neinar aðrar upplýsingar en kennitölu og forsíðumynd viðkomandi nemenda. Ekki var hægt að nálgast neinar aðrar upplýsingar né heldur breyta upplýsingum og engin lykilorð voru í hættu.
Mentor hyggst skoða réttarstöðu sína vegna málsins.