Victor Ge­vers, hollenskum sér­fræðingi í net­öryggis­málum, tókst í síðustu viku að komast inn á Twitter-að­gang Donalds Trump Banda­ríkja­for­seta. Þetta gerði hann með því að giska á lykil­orðið sem reyndist vera: maga2020!.

Það er vef­út­gáfa breska blaðsins The Guar­dian sem greinir frá þessu og vísar í hollenska blaðið De Volkskrant sem fyrst greindi frá málinu. Ge­vers hafði að­gang að öllum skila­boðum for­setans á Twitter, gat ó­hindrað sett inn færslur í hans nafni og breytt not­enda­nafninu hans.

Tókst í fimmtu tilraun

Í frétt Guar­dian kemur fram að Ge­vers hafi tekist að komast inn á Twitter-reikning Banda­ríkja­for­seta árið 2016 og aftur í síðustu viku. Þurfti hann að­eins fimm til­raunir til að giska rétt.

„Ég reiknaði alveg eins með því að verða blokkaður eftir fjórar til­raunir, eða að minnsta kosti beðinn um ein­hverjar við­bótar­upp­lýsingar,“ hefur De Volkskrant eftir Ge­vers.

Ge­vers segir aug­ljóst að for­setanum sé ekkert sér­stak­lega um­hugað um net­öryggi. Þannig er ljóst að hann notar ekki svo­kallaða tveggja þátta auð­kenningu sem getur dregið mjög úr hættunni á að ó­vel­komnir aðilar komist inn á per­sónu­lega reikninga fólks, til dæmis á sam­fé­lags­miðlum.

Lét CIA og FBI vita

Ge­vers segir að illur hugur hafi ekki legið að baki hjá honum. Þvert á móti kveðst hann hafa látið banda­rísku leyni­þjónustuna (CIA), Hvíta húsið og banda­rísku al­ríkis­lög­regluna vita af því að Twitter-að­gangur for­setans væri ekki öruggur.

Hann segir að það hafi komið honum á ó­vart að í fyrstu fékk hann engin við­brögð, en daginn eftir að hann komst inn á að­ganginn hafði tveggja þátta auð­kenningin verið virkjuð. Leyni­þjónustan setti sig svo í sam­band við hann og þakkaði honum fyrir að vekja at­hygli á málinu.

Eins og fram kemur hér að framan er þetta ekki í fyrsta sinn sem Ge­vers giskar á lykil­orð Banda­ríkja­for­seta. Árið 2016 var lykil­orðið ör­lítið annað og trú­lega ekki eins flókið. Lykil­orðið var „yourefired“.