Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segir enga þörf á að knýja fram atkvæðagreiðslu um innleiðingu þriðja orkupakkans eins og einhverjir flokksmenn hyggjast gera. Málið verði afgreitt um næstu mánaðamót og nú sé kominn tími til að ræða önnur mikilvæg mál.

Þetta sagði Bjarni á opnum fundi Sjálfstæðisflokksins sem var haldinn í Valhöll í dag. Bjarni sagði vissulega skiptar skoðanir um málið innan flokksins en það væri allt í góðu og ekki nýtt fyrir flokkinn. Mikil ólga hefur verið innan flokksins í kringum málið eins og greint hefur verið frá.

Fyrrverandi formaður flokksins, Davíð Oddsson, hefur til að mynda farið afar hörðum orðum um stefnu þingflokksins, sérstaklega í orkupakkamálinu. Þá fór formaður Félags sjálfstæðismanna í Hlíða- og Holtahverfi af stað með undirskriftasöfnun til að knýja fram atkvæðagreiðslu um málið innan flokksins. Samkvæmt 6. grein skipulagsreglna flokksins verður að fara fram kosning um tiltekin málefni ef að minnsta kosti 5000 flokksbundnir félagar óska þess. Þar af skulu ekki færri en 300 koma úr hverju kjördæmi landsins.

Tvískinnungur Miðflokksmanna

Bjarni skaut þá hörðum skotum að Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni formanni Miðflokksins og Gunnari Braga Sveinssyni, þingmanni Miðflokksins, í ræðu sinni. Sigmundur var forsætisráðherra og Gunnar Bragi utanríkisráðherra þegar orkupakkarnir voru upprunalega til skoðunar. Bjarni sagði þá að þinginu hefðu ítrekað verið send minnisblöð frá utanríkisráðuneytinu þess efnis að innleiðing pakkanna væri ekki brot gegn stjórnarskrá landsins.

„Þeir sem sátu í forsætisráðuneytinu og utanríkisráðuneytinu og báru ábyrgð á meðferð EES-mála segja núna hvers vegna er þetta komið svona langt, þeir báru ábyrgð á minnisblöðunum og spyrja hvar eru minnisblöðin,“ hefur mbl.is orðrétt eftir Bjarna.

Hann kvaðst þá ekki láta skoðanakannanir á miðju kjörtímabili hafa áhrif á sig. „Ég fer í vinnuna á hverjum degi til þess að fylgja eftir baráttumálum okkar,“ sagði hann í ræðunni.