„Við erum að bregðast við ábendingum frá sjósundsfólki sem hafa komið því það er sívaxandi aðsókn í sjóinn,“ segir Hjálmar Sveinsson, formaður menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs, en á fundi ráðsins í vikunni var samþykkt að sett verði upp aðgangshlið í vor vegna búningsklefa og rætt um lengri opnunartíma, sem Hjálmar segir líklegt að taki gildi síðar á þessu ári, jafnvel í haust.

Ylströndin var opnuð fyrir 20 árum og það þarf meðal annars að bæta aðgengi fyrir fatlaða á ströndinni og vegna vinsælda er nánast uppselt í heita pottinn, jafnvel á köldustu dögum.

Hjálmar, sem stundar sjósund sjálfur, segir að það hafi verið rætt að gera útiklefa meðal annars. „Sjósund gerir manni svo gott,“ segir hann.

„Jafnvel á köldum vetrardögum er allt fullt af sjósundsfólki í Nauthólsvík. Það eru 20 ár síðan þetta var opnað og það er alveg kominn tími á að skoða hvaða umbætur er hægt að gera þarna.“

Hann þekkir því vel til vinsælda aðstöðunnar sem er sú eina í borginni. Í hugmyndasamkeppni borgarinnar Hverfið mitt komu vinsældirnar bersýnilega í ljós, því alls staðar vildu borgarbúar fá sjósunds­aðstöðu í hverfið.

Hjálmar segir að tveir staðir séu í kortunum. Í Gufunesi og á Laugarnesi.

„Það má segja að pælingin með Gufunes sé komin lengra. Hún er inni í Græna plani borgarinnar og þar er falleg skeljasandsströnd.“