Eldfjalla- og jarð­skjálfta­fræðingur hjá Veður­stofunni segir að 50 ár séu frá stórum Brenni­steins­fjalla­skjálfta og að yfir­leitt líði að­eins 50 ár þeirra á milli. Þeir séu yfir­leitt sterkir og gæti því verið von á sterkari skjálfta en var á Reykja­nesinu og höfuð­borgar­svæðinu á mið­viku­dag.

„Við viljum ekki valda fólki á­hyggjum en viljum samt benda á það að það eru komin 50 ár frá því að Brenni­steins­fjalla­skjálfti var síðast og þeir virðast koma á 50 ára fresti og það má segja sem svo að það sé kominn tími á annan Brenni­steins­fjalla­skjálfta,“ segir Kristín Jóns­dóttir, eldfjalla- og jarð­skjálfta­fræðingur og hóp­stjóri náttúru­vá­r­vöktunar hjá Veður­stofu Ís­lands, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Kristín segir að þess vegna sé mjög mikil­vægt að fólk hugi að því innan­stokks­munum, þungum hlutum og hvernig það bregðist við verði stór skjálfti.

„Svo­leiðis skjálftar eru sterkari en það sem við fundum í fyrra­dag,“ bætir hún við.

Kristín segir að þótt svo að það líði yfir­leitt 50 ár á milli Brenni­steins­fjalla­skjálfta gætu alveg verið tíu ár í þann næsta. Virkni eins og við höfum upp­lifað undan­farna daga bendi þó alltaf til þess að það séu meiri líkur á því að eitt­hvað slíkt gerist.

Mikilvægt að bregðast rétt við

„Við búum á eyju þar sem að geta orðið stórir skjálftar og það er mjög mikil­vægt að bregðast ekki við með því að hlaupa út. Það hellist yfir mann mikil þörf að komast út ef maður er inni en það er mikil­vægt að standast þá þörf og bíða skjálftann af sér,“ segir Kristín.

Hún segir að við slíkar að­stæður geti hlutir dottið og brotnað og ef fólk er að flýta sér geti það hrasað eða meitt sig á gler­brotum.

„Það er betra að krjúpa, halda yfir höfuðið og koma sér undir borð ef maður getur,“ segir Kristín og bætir við að nýjustu rann­sóknir segi að maður eigi ekki að fara í dyra­op því þar geti loft­plötur fallið á mann.

Þegar mesti hristingurinn er búinn þá getur fólk metið að­stæður og skemmdir og hvernig það geti komið sér út.

Ekki vera undir hlíð eða hömrum

Spurð hvort fólk þurfi að hafa á­hyggjur ætli það í fjall­göngur, á skíði eða í aðra úti­vist um helgina segir Kristín að það sé reyndar leiðin­leg veður­spá en að fólk eigi ekki að halda sig inni endi­lega. Það þurfi þó að huga að því hvort það sé undir hömrum eða hlíðum og hvort eitt­hvað geti hrunið á það komi annar stór skjálfti.

„Um að gera að vera úti, en ekki vera undir bröttum hlíðum,“ segir Kristín.

Hún segir að þau fundi reglu­lega með al­manna­vörnum og að hættu­stig þeirra sé enn í gildi. Al­manna­varnir taka á­kvarðanir um opnanir og lokanir, eins og í Blá­fjöllum og að fólk verði látið vita verði ein­hverjar breytingar á því.

„Núna erum við að sjá eftir­skjálfta og frekar að það sé að draga úr virkni. Við vonum að það verði á­fram þannig,“ segir Kristín að lokum.