Eldfjalla- og jarðskjálftafræðingur hjá Veðurstofunni segir að 50 ár séu frá stórum Brennisteinsfjallaskjálfta og að yfirleitt líði aðeins 50 ár þeirra á milli. Þeir séu yfirleitt sterkir og gæti því verið von á sterkari skjálfta en var á Reykjanesinu og höfuðborgarsvæðinu á miðvikudag.
„Við viljum ekki valda fólki áhyggjum en viljum samt benda á það að það eru komin 50 ár frá því að Brennisteinsfjallaskjálfti var síðast og þeir virðast koma á 50 ára fresti og það má segja sem svo að það sé kominn tími á annan Brennisteinsfjallaskjálfta,“ segir Kristín Jónsdóttir, eldfjalla- og jarðskjálftafræðingur og hópstjóri náttúruvárvöktunar hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við Fréttablaðið.
Kristín segir að þess vegna sé mjög mikilvægt að fólk hugi að því innanstokksmunum, þungum hlutum og hvernig það bregðist við verði stór skjálfti.
„Svoleiðis skjálftar eru sterkari en það sem við fundum í fyrradag,“ bætir hún við.
Kristín segir að þótt svo að það líði yfirleitt 50 ár á milli Brennisteinsfjallaskjálfta gætu alveg verið tíu ár í þann næsta. Virkni eins og við höfum upplifað undanfarna daga bendi þó alltaf til þess að það séu meiri líkur á því að eitthvað slíkt gerist.
Mikilvægt að bregðast rétt við
„Við búum á eyju þar sem að geta orðið stórir skjálftar og það er mjög mikilvægt að bregðast ekki við með því að hlaupa út. Það hellist yfir mann mikil þörf að komast út ef maður er inni en það er mikilvægt að standast þá þörf og bíða skjálftann af sér,“ segir Kristín.
Hún segir að við slíkar aðstæður geti hlutir dottið og brotnað og ef fólk er að flýta sér geti það hrasað eða meitt sig á glerbrotum.
„Það er betra að krjúpa, halda yfir höfuðið og koma sér undir borð ef maður getur,“ segir Kristín og bætir við að nýjustu rannsóknir segi að maður eigi ekki að fara í dyraop því þar geti loftplötur fallið á mann.
Þegar mesti hristingurinn er búinn þá getur fólk metið aðstæður og skemmdir og hvernig það geti komið sér út.
Ekki vera undir hlíð eða hömrum
Spurð hvort fólk þurfi að hafa áhyggjur ætli það í fjallgöngur, á skíði eða í aðra útivist um helgina segir Kristín að það sé reyndar leiðinleg veðurspá en að fólk eigi ekki að halda sig inni endilega. Það þurfi þó að huga að því hvort það sé undir hömrum eða hlíðum og hvort eitthvað geti hrunið á það komi annar stór skjálfti.
„Um að gera að vera úti, en ekki vera undir bröttum hlíðum,“ segir Kristín.
Hún segir að þau fundi reglulega með almannavörnum og að hættustig þeirra sé enn í gildi. Almannavarnir taka ákvarðanir um opnanir og lokanir, eins og í Bláfjöllum og að fólk verði látið vita verði einhverjar breytingar á því.
„Núna erum við að sjá eftirskjálfta og frekar að það sé að draga úr virkni. Við vonum að það verði áfram þannig,“ segir Kristín að lokum.