Maðurinn sem var skotinn í kviðinn í aðgerðum lögreglunnar er á batavegi og hefur náð góðum framförum að sögn lögmanns hans. Hann sætir nú gæslu á sjúkrahúsi grunaður um skotárás á Egilsstöðum.

„Aðgerð gekk vel og hann er kominn á lappir sem er alveg ótrúlegt,“ segir Þórður Már Jónsson lögmaður í samtali við Fréttablaðið.

„Ég er búinn að hitta hann nokkrum sinnum. Þetta er ofboðslega sorglegt mál en honum líður auðvitað mjög mjög illa. Þetta er maður sem hefur aldrei áður komið við sögu lögreglu,“ segir Þórður Már.

Þórður Már Jónsson lögmaður.

Héraðssaksóknari gerði síðastliðinn laugardag kröfu um tveggja vikna gæsluvarðhald yfir manninum eftir skotárás með loftriffli á Egilsstöðum fimmtudaginn 26. ágúst.

Fallist var á kröfuna af héraðsdómi Reykjavíkur en gæsluvarðhaldið er á grundvelli rannsóknarhagsmuna og til að verja aðra fyrir árásum sakbornings. Rannsókn lýtur meðal annars að tilraun til manndráps, valdstjórnarbrotum, líkamsárás, hótunum og almannahættubrotum auk brota gegn vopnalögum og barnaverndarlagabrotum.

Rannsókn málsins miðar vel en embætti héraðssaksóknara hefur jafnframt til rannsóknar þann þátt málsins sem varðar beitingu lögreglu á skotvopni gegn sakborningi.

Aðspurður segir Þórður of snemmt að ræða um málsatvik og rannsóknina.

„Ég held að það sé of snemmt að fara að tala um það. Það er erfitt að fara yfir málsatvik að svo stöddu þar sem rannsóknin er enn í gangi,“ segir Þórður.