Skattar á áfengi eru komnir að ystu mörkum. Þetta sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í beinni útsendingu á vef flokksins nú í hádeginu.
Bjarni byrjaði fundinn á því að ræða skattalækkanir, þá tók hann við spurningum sem sendar voru til hans. Ein spurningin sneri að því hvenær „eitthvað almennilegt“ verði gert í skattamálum á áfengi.
Bjarni sagði að áfengisgjöld væru uppfærð á hverju ári, krónutala sem er uppfærð í takt við verðlag. „Hún hefur alls ekki haldið í við laun þannig að við þann mælikvarða hefur raungildi skattsins verið að lækka,“ sagði hann.
„Það er mín skoðun að við séum komin algjörlega út í ystu mörk á skattlagningu. Þá er ég einfaldlega að vísa til þess að við erum líklega með eina dýrustu bjórkrús í Evrópu. Mér finnst ekki endilega að það eigi að vera þannig. Mér finnst að við ættum að geta verið með sambærileg verð og eru í löndum sem eru á svipuðum slóðum og Íslandi. Það þýðir að við þurfum að taka áfengisgjöldin til endurskoðunar eða breyta áfengisgjöldunum fyrir veitingahús.“
Bjarni bætti við að endurskoðunin gæti verið til að styrkja rekstur veitingahúsa.
„Við þurfum líka að styrkja veitingahúsin, þau eiga að auka fjölbreytnina og bæta menninguna. Við höfum öll notið góðs af því að fá fleiri ferðamenn og þetta gerir lífið einfaldlega skemmtilegra að sjá veitingastaði og matsölustaði þrífast. Ef við erum með of há áfengisgjöld þá er minna svigrúm eftir til rekstrarins.“
Hér má sjá streymi af fundinum.