Rúmlega þúsund spilarar tölvuleiksins EVE Online lituðu miðborg Reykjavíkur fallegum litum um helgina þegar svokallað EVE Fanfest fór fram í fyrsta sinn í fjögur ár. Hátt í 30 erlendir blaðamenn komu til landsins og voru mánudagsblöðin lituð af upplifun þeirra af Íslandi og hátíðinni.

„Við hjá CCP erum mjög ánægð með hvernig til tókst. Það skal alveg játast að eftir fjögur ár vorum við kannski svolítið komin úr æfingu. En þetta tókst gríðarlega vel,“ segir Eldar Ástþórsson, vörumerkjastjóri CCP. Hann segir umfjöllunina hafa verið meiri en hann vonaðist eftir.

„Reykjavík er líka staðurinn þar sem EVE Online varð til og hér höldum við áfram að þróa og búa til EVE-heiminn. Því finnst spilurum merkilegt að sækja borgina heim.“ ■