Myndir af dularfullum gárum í sjónum vestan megin við flug­brautina á Reykja­víkur­flug­velli og Ægis­síðu hafa vakið mikla athygli á samfélagsmiðum. Samkvæmt upplýsingum frá Ólöfu Snæhólm Baldursdóttur, upplýsingafulltrúa Veitna, sýna myndirnar líklega skólpdælingu 200 metra út á sjó sem rekja má til bilunar í dælu við Faxaskjól.

Græn leið, fyrir­tæki sem sér­hæfir sig í ráð­gjöf í um­hverfis­málum, birti myndirnar á Face­book-síðu sinni um helgina.

Veitur stunda reglulegar mælingar á svæðinu ítengslum við viðhald á hreinsistöð fráveitu við Ánanaust. Þar er verið að skipta um svokallað „trompet“ í hreinsistöðinni og á meðan fer óhreinsað skólp í sjó. Mælingar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og verkfræðistofunnar Eflu, sem tekur sýni fyrir Veitur, hafa sýnt að mengun hefur ekki verið að berast fyrir nesið að þessari strandlengju.

Dæla sló út

Samkvæmt upplýsingum fram Ólöfu Snæhólm fóru að sjást hærri mengunargildi við Ægissíðu í síðustu viku. Í fyrstu var talið að um væri að kenna rigningartíð en þegar mikið af ofanvatni berst í fráveituna kemur fyrir að kerfið hafi ekki undan og er þá umframmagni dælt um 200 metra út í sjó. Um er að ræða útþynnt skólp, regn- og hitaveituvatn að mestu. Þegar hærri gildi héldu áfram að sýna sig næstu daga var farið að kanna málið frekar. Í ljós kom að dæla hafði slegið út án þess að senda bilunarboð í eftirlitskerfi Veitna. Var hún gangsett að nýju.