Auður Viðars­dóttir, doktors­nemi í þjóð­fræði við Há­skóla Ís­lands, vinnur nú á­samt öðrum vísinda­mönnum að því að safna upp­lýsingum í spurninga­skrá um upp­lifun og sjónar­horn fólks sem hefur til­einkað sér sjálf­bært, heilsu­sam­legt matar­æði á Ís­landi.

Það geta verið, til dæmis, þau sem eru græn­kerar, græn­metis­ætur, vist­kerar eða þau sem borða líf­rænt ræktaða mat­vöru og aðrir sem borða með­vitað með til­liti til um­hverfisins, dýra­verndar eða eigin heilsu.

„Allir sem hafa velt þessu fyrir sér, þau sem eru að reyna það og jafn­vel þau sem hafa reynt en gefist upp. Það er líka á­huga­vert að heyra af því,“ segir Auður og bætir við:

„Ég er til dæmis komin af bændum en ólst upp í 101/107, á milli tveggja heima. Okkur langar að skoða þetta og hvort það sé hægt að finna ein­hvern milli­veg. Hvort að fólk geti fundið sér stað innan sjálf­bærs matar­æðis.“

Hún á­réttar að það sé ekki ein leið, þær eru margar, en ofan á, fyrir marga í þessum hug­leiðingum hafi verið vist­ker­a­fæðið [e. Flexitarian] en hug­myndin að baki því kemur frá vísinda­mönnum sem reiknuðu út hvernig væri hægt að fæða tíu milljarða manns án þess að eyði­leggja jörðina.

Útreikningar sem eiga við á Íslandi

Spurninga­skráin er hluti af rann­sóknar­verk­efninu „Sjálf­bært heilsu­sam­legt matar­æði: vísindi sem veg­vísir í átt að sjálf­bærri fram­tíð“.

Verk­efnið leiðir saman vísinda­menn af ó­líkum sviðum til að skoða mis­munandi matar­æði, með á­herslu á kol­efnis­spor Ís­lendinga. Mark­mið verk­efnisins er að auka við þekkingu sem auð­veldar stefnu­mótandi aðilum að taka á­kvarðanir um hvernig sé hægt að stuðla að breytingu í átt að sjálf­bæru, heilsu­sam­legu matar­æði og vist­vænni mat­væla­fram­leiðslu á Íslandi.

„Við gerum þetta með því að gera rann­sóknir, afla upp­lýsinga og gera út­reikninga sem eiga við á Ís­landi, eins og um kol­efnis­fót­spor og annað slíkt,“ segir Auður og að einnig sé hluti verk­efnisins að kanna næringar­á­stand þeirra sem eru græn­kerar, eða vegan.

„Það er alltaf á tíu ára fresti send út könnun um matar­æði, al­mennt, og úr­takið af vegan fólki í því hefur verið svo lítið því úr­takið er til­viljana­kennt. Því er núna sér­stak­lega leitað til fleiri í þeim hópi,“ segir Auður.

Hún tekur sjálf við­töl við fólk úr þeim hópi, en spurninga­skránni er ætlað að ná víðari gögnum með því að ná til fleira fólks, til dæmis utan af landi. Þannig að svör berist frá fjöl­breyttum hópi.

Hún segir að mark­mið þeirra sé ekki endi­lega að á­kvarða nokkuð eða safna upp­lýsingum um þann fjölda sem að­hyllist á­kveðið matar­æði en vonast til þess að með gagna­öfluninni fáist dýpri upp­lýsingar það hvernig er, til dæmis, að vera vegan á Ís­landi, bæði næringar­lega og fé­lags- og menningar­lega.

„Þá, í sam­ræmi við það, er þá hægt að þróa lausnir um hvernig það gæti verið betra. Því það er enda­tak­markið, að nota gögnin til að byggja á þeim,“ segir Auður og vísar, meðal annars, til næringar­leið­beininga sem eru gefnar út reglu­lega af em­bætti land­læknis.

Dæmi um það sem gæti ratað á disk þeirra sem aðhyllast vistkera-mataræði.
Fréttablaðið/Getty

Of lítið talað um áhrif matvælaiðnaðarins

Hún segir að það séu mörg ó­nýtt tæki­færi í matar­æði þegar kemur að lofts­lags­breytingum í mat­væla­iðnaði.

„Mat­væla­iðnaðurinn hefur svo mikil á­hrif og það skiptir svo miklu máli hvernig hlutirnir eru gerðir,“ segir Auður.

Það er ekki eins mikið talað um það og bíla og rusl?

„Já, ég finn alveg að fólki finnst flókið þegar það á að borða bæði hollt og sjálf­bært. Því það þarf að vera raun­hæft í þeirra dag­lega lífi og það er þar sem að spurninga­skráin kemur inn. Það er fullt af fólki sem er að gera þetta nú þegar og það er svo gott að fá frá þeim reynslu, þekkingu og upp­lýsingar um það hvernig þetta er í fram­kvæmd hér á landi. Bæði upp­lýsingar um al­mennt að­gengi að mat en líka menningar­legar hug­myndir, hvort það verður fyrir að­kasti vegna þess sem það hefur valið,“ segir Auður og bætir við:

„Hlutirnir þurfa að breytast hratt núna, út af lofts­lags­vánni, þannig það er gaman að geta kort­lagt þetta í raun­tíma um það hvernig það er að breyta hlutunum í sínu eigin dag­lega lífi.“

Þetta er kannski leið til að takast á við lofts­lagskvíðann?

„Við sjáum það kannski sér­stak­lega í tengslum við mat­væla­iðnaðinn, hann er svo stór, og auð­vitað þurfa fyrir­tæki og fram­leið­endur að axla sína á­byrgð en maður hefur alltaf eitt­hvað vald sem neytandi. Það getur verið flókið en þess vegna er mark­miðið að gefa fólki betri upp­lýsingar, út frá sam­henginu hér á Ís­landi, hvað sé raun­veru­lega um­hverfis­vænasti kosturinn,“ segir Auður.

Gott að safna gögnum í rauntíma

Spurninga­skráin er að­gengi­leg á Sarpinum sem er menningar­legt sögu­safn. Auður segir að fáir viti af safninu en vonast til þess að fleiri kynni sér það. Þar sé mikið af gagn­legum upp­lýsingum.

„Fyrst var eigin­lega bara leitað til eldra fólks til að safna upp­lýsingum um það hvernig hlutirnir voru,“ segir Auður en inni á síðunni eru alls­kyns spurninga­listar um ömmur, gælu­dýr, ís­bjarna­sögur og við­horf til torf­húsa.

Hún segir að fyrir þau sem svara spurninga­skránni fyrir lok mars sé í boði að vinna tíu vikna græn­metis­á­skrift frá vist­vænu gróðrar­stöðinni Flight Song Farm í Reykja­lundi, Gríms­nesi en tekur þó fram að skráin verði á­fram opin eftir það.

„Ég mun byrja að vinna úr þeim svörum sem hafa borist við lok mars. Ég er í fæðingar­or­lofi og sný þá aftur til vinnu,“ segir Auður

Spurninga­skráin er að­gengi­leg hér á ís­lensku og ensku. Auður segir að allar spurningarnar séu opnar og því geti tekið tíma að svara. Það geti jafn­vel verið sniðugt að skrifa í Word eða öðru á­líka for­riti því ekki sé hægt að fara inn og út úr könnunni og vista svör sín. Auður mælir með því að fólk taki þátt og nýti tæki­færi til sjálfs­skoðunar á eigin neyslu.

„Það er hægt að pæla í því hvað þau eru að gera og af hverju og jafn­vel skrifa upp sögur ef þau hafa lent í ein­hverju í matar­boði eða eitt­hvað slíkt. Það má fara vítt og breitt en þetta má líka vera stutt og lag­gott, það hjálpar allt,“ segir hún.

Þá tekur hún fram að al­mennt eru slíkar rann­sóknir í þjóðfræði ekki nafn­lausar en hægt er að merkja við ef fólk vill svara nafn­laust.

Hægt er að taka þátt hér.