CO­VID-19 Rúm­lega tíu þúsund manns hafa verið boðaðir í bólu­setningu vegna kórónu­veirunnar í þessari viku. Þetta kemur fram í bólu­setningar­daga­tali Land­læknis. Bólu­efnin þrjú sem hafa borist hingað til lands, AstraZene­ca, Pfizer og Moderna, verða notuð við bólu­setningarnar.

Mið­viku­daginn 7. apríl fá þeir seinni Pfizer-sprautuna sem fengu þá fyrri fyrir 18. mars. Á fimmtu­daginn hefst bólu­setning næsta aldurs­hóps í röðinni þegar allir fæddir 1951 og fyrr verða bólu­settir með bólu­efni AstraZene­ca. Á föstu­daginn verður svo heil­brigðis­starfs­fólk, sem starfar utan stofnana, bólu­sett með Moderna. Bólu­setning fer fram í Laugar­dals­höll alla þrjá dagana.

Eins og staðan er núna hafa 50.259 fengið bólu­efni og tæp­lega helmingur þeirra hefur fengið báðar sprauturnar. Í apríl er stefnt að því að bólu­setja tvo þriðju þerra sem eru á aldrinum 60–69 ára og tæp­lega helming þeirra sem hafa undir­liggjandi lang­vinna sjúk­dóma.

Stærstur hluti þeirra sem bólu­settir hafa verið hér á landi hafa fengið bólu­efni frá Pfizer, eða um það bil 28 þúsund manns. Þar á eftir kemur AstraZene­ca, um 17 þúsund. Rúm­lega fjögur þúsund hafa verið bólu­settir með Moderna.