Hady Amr, sendi­herra Banda­ríkjanna, er nú kominn til Tel Aviv til þess að ræða mögu­legar sáttir milli Ísraela og Palestínu­manna en mikil átök hafa geisað þeirra á milli síðast­liðna viku. Yfir­völd frá Ísrael, Palestínu og Sam­einuðu þjóðunum munu koma saman til að koma í veg fyrir að á­standið stig­magnist.

Ísraels­her og hernaðar­menn á Gaza­svæðinu hafa skotið fjöl­mörgum flug­skeytum hvort á annað síðast­liðna daga staðan þeirra á milli ekki verið verri frá árinu 2014. Að því er kemur fram í frétt BBC um málið hafa að minnsta kosti 136 manns látist á Gaza og átta í Ísrael frá því að á­tökin hófust.

Ísraelar skutu meðal annars flug­skeytum að Gaza í morgun og létust tíu manns í þeim á­rásum, þar af sjö eftir árás á flótta­manna­búðir. Palestínu­menn svöruðu fyrir sig og skutu flug­skeytum á móti. Óttast er að staðan muni versna enn frekar í dag með til­heyrandi mann­falli.

Vilja að alþjóðasamfélagið skerist í leikinn

Talið er að um 10 þúsund Palestínu­menn hafi flúið heimili sitt frá því á mánu­daginn, að sögn Sam­einuðu þjóðanna, og hefur al­þjóða­sam­fé­lagið verið hvatt til að bregðast við og skerast í leikinn. Benja­min Netanyahu, for­sætis­ráð­herra Ísrael, hefur þó heitið því að á­rásunum verði haldið á­fram eins lengi og þörf er á.

Ísraels­her hefur sent her­sveitir og skrið­dreka að landa­mærum Gaza, segja þeir að það komi til greina að senda inn her­lið. Hamas sam­tökin segjast vera til­búin að hætta öllum á­rásum ef al­þjóða­sam­fé­lagið þrýsti á Ísraela að hætta „öllum hernaðar­um­svifum“ við al-Aqsa moskuna í Jerúsalem.

Á­tökin hafa að mestu verið milli Palestínu­manna og lög­reglu í Ísrael og versnuðu veru­lega þegar til stóð að halda Jerúsalem­daginn há­tíð­legan í Ís­real, en dagurinn er til minningar um það þegar ísraelskir her­menn náðu völdum í Jerúsalem árið 1967.