Opinber heimsókn Mike Pence varaforseta Bandaríkjanna til Íslands þann 3. september næstkomandi og aukin hernaðarumsvif hafa verið mikið til umræðu upp á síðkastið.

Samtök hernaðarandstæðinga efna til mótmæla vegna komu varaforsetans, Samtökin '78 fordæma heimsóknina og Steinunn Ólína segir að stjórnvöld hafi opnað fyrir þann möguleika að geyma kjarnorkuvopn hér á landi. Koma varaforsetans var til umræðu á fundi utanríkismálanefndar Alþingis í gær.

Boða til skipulagsfundar í Friðarhúsi

SHA hafa boðað til opins skipulagsfundar fimmtudaginn 22. ágúst næstkomandi í Friðarhúsi við Njálsgötu 87 og vilja þau leiða saman ólíka hópa til að standa að mótmælum.

„Pence er fulltrúi ríkisstjórnar sem rift hefur mikilvægum afvopnunarsamningum, blásið til vígbúnaðarkapphlaups og róið undir stríðsátökum víða um lönd. Bandaríkjastjórn hefur sagt sig frá Parísarsamkomulaginu og innan Hvíta hússins eru ráðandi öfl sem hafna tilvist loftslagsbreytinga af mannavöldum,“ segir í yfirlýsingu SHA.

Ísland er fyrsti viðkomustaður varaforsetans en hann mun næst á eftir sækja Bret­land heim 4.-5. septem­ber og svo Ír­land föstu­daginn 6. septem­ber.

Opni fyrir möguleika að geyma kjarnavopn

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sagði í viðtali við Stöð 2 fyrir nokkru að aðalumræðuefnið í heimsókn varaforsetans yrði samstarf á sviði efnahags- og viðskiptamála. Á vef Hvíta hússins kemur hins vegar fram að Pence vilji undir­strika land­fræði­legt mikil­vægi Ís­lands á norður­slóðum og að­gerðir NATÓ til að bregðast við auknum um­svifum Rúss­lands. Hann vilji því ræða við Guðlaug um bæði viðskipta- og varnarmál.

Í fjár­mála­áætl­un var kveðið á um að 300 millj­ón­um yrði varið í upp­bygg­ingu innviða hér á landi vegna skuld­bind­inga Íslands í Atlants­hafs­banda­lag­inu. Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir gagnrýndi Katrínu Jakobsdóttur fyrir að hafa samþykkt að „vippa 300 milljónum úr þróunaraðstoð og leggja í púkk með Nató og Bandaríkjaher“ í pistli sínum sem hún skrifaði í síðasta mánuði.

Steinunn segir að stjórnvöld hafi hugsanlega opnað fyrir þann möguleika að geyma kjarnorkuvopn vegna 10. greinar í þingsályktun um þjóðaröryggisstefnu sem samþykkt var árið 2016. Þar stendur að Ísland og íslensk landhelgi sé friðlýst fyrir kjarnavopnum, að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga, í því augnamiði að stuðla að afvopnun og friði af Íslands hálfu.“

Viðskipta- og varnarmál vondur kokteill

„Það er augljóst mál, jafnvel þó að utanríkisráðherra okkar hafi haldið því fram að Bandaríkjamenn vilji koma hingað að ræða við smáríki um viðskipti, sem er auðvitað mikilvægt, þá er alveg jafn ljóst að varaforseti Bandaríkjanna er að gera sér ferð hingað til að ræða varnarmál. Þetta er vondur kokteill. Við eigum ekki að ræða viðskiptamál og varnarmál í leiðinni. Það hefur verið gert of oft á Íslandi,“ segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, í samtali við Fréttablaðið.

Heimsókn Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, var til umræðu á fundi utanríkismálanefndar Alþingis í gær. Logi Einarsson óskaði eftir fundinum. Rætt var um uppbyggingu Bandaríkjahers í Keflavík og óskað eftir skýringum á því hvers vegna upphæðirnar væru orðnar tvöfaldar miðað við það sem var áformað fyrir einu og hálfu ári.

Bandaríkjaher og Atlantshafsbandalagið (NATO) áætla að verja samtals um fjórtán milljörðum króna til uppbyggingar og viðhalds á varnarmannvirkjum hér á landi á næstu árum. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir að áform Bandaríkjahers um uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli feli ekki í sér að endurvekja gömlu herstöðina.

Vanvirðing við hinsegin fólk

Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður Samtakanna '78 hefur einnig fordæmt heimsókn Mike Pence.

„Nú ætlar ríkisstjórn Íslands að taka á móti Mike Pence, ræða kurteisislega við hann um viðskiptasamráð og efla með því tengslin við Bandaríkin. Allar slíkar áætlanir eru hrein og klár vanvirðing við samfélag hinsegin fólks á Íslandi. Við munum ekki sitja undir því þegjandi að hann sé boðinn velkominn hingað til lands. Ekki séns,“ skrifar Þorbjörg.

Samtök hernaðarandstæðinga taka undir með Þorbjörgu.

„Pence og félagar hafa með ýmsum hætti staðið í vegi fyrir mannréttindabaráttu hinsegin fólks og gengið á rétt kvenna til að ráða eigin líkama með baráttu gegn þungunarrofi. Úrsögn Bandaríkjanna úr Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna og stuðningur við einræðisstjórnir víða um lönd er til marks um þverrandi virðingu fyrir mannréttindum og það sama má segja um stefnuna gagnvart flóttafólki,“ segir í yfirlýsingu SHA.