Ok telst ekki lengur vera jökull og er því fyrsti nafnkunni jökullinn til að missa titil sinn. Hópur bandarískra vísindamanna munu ganga upp að öskju Oks í sumar og koma þar fyrir minnisvarða. Ok er tæplega 1200 metra há dyngja vestur af Langjökli en ísmassinn á toppnum uppfyllir ekki lengur þau vísindalegu skilyrði sem til þarf til að teljast jökull. Fréttirnar að Ok væri að hverfa bárust fyrst árið 2014 en nú hefur það verið staðfest.

Bandarískir vísindamenn koma fyrir minnisvarða

„Hann var úrskurðaður látinn í fyrra,“ segir Hjalti Björnsson, leiðsögumaður hjá Ferðafélagi Íslands. Hann mun leiða hóp bandarískra vísindamanna og nemenda frá Rice University upp að öskju Oks og leifum Ok-jökuls þann 18. ágúst næstkomandi.

„Vísindamenn frá Rice University í Bandaríkjunum stendur fyrir þessu. Þau hafa verið að koma hingað undanfarin ár og fylgjast með hlýnun jarðar og hopun jökla,“ segir Hjalti.

Dominic Boyer og Cymene Howe prófessorar í mannfræði fara fyrir bandaríska hópnum en þau gerðu heimildarmyndina Not Ok sem fjallar um fyrrum jökulinn og samband Íslendinga við jökla. Hér fyrir neðan má sjá stiklu úr heimildarmyndinni.

Ferðafélagið er umsjónaraðili ferðarinnar og verður Hjalti fararstjóri í ferðinni.

Bréf til framtíðarinnar

Minnisvarðinn er bréf til framtíðar til vitnis um hlýnun jarðar.

„Ok er fyrsti nafnkunni jökullinn til að missa titil sinn. Á næstu 200 árum er talið að allir jöklar landsins fari sömu leið. Þetta minnismerki er til vitnis um að við vitum hvað er að gerast og hvað þarf að gera. Aðeins þú veist hvort við gerðum eitthvað.“

Not Ok Trailer from Cymene Howe on Vimeo.