Sex menn, sem grunaðir eru um spillingu í Namibíu í tengslum við Samherjaskjölin, koma fyrir dómara í dag. Um er að ræða Bernhardt Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, hákarlana þrjá svokölluðu, Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra, James Hatuikulipi, fyrrverandi stjórnarformaður ríkisútgerðarinnar Fishcor og Tamson „Fitty“ Hatuikulipi ásamt Ricardo Gustavo, samstarfsmanni James og Pius Mwatelulo sem tengist James fjölskylduböndum.

Mál sexmenningana var í síðustu viku frestað tvívegis vegna umsóknar um lausn úr varðhaldi gegn tryggingu. Sú beiðni verður tekin fyrir í dag.

Sitjandi forseti Namibíu, Hage Geingob, sigraði á laugardag í kosningum í landinu með yfirburðum eða með um 56,3 prósentum atkvæða. Hann hefur bent Íslendingum á að rannsaka spillingu hér á landi.

Til þings voru fimmtán flokkar í framboði í fjórtán kjördæmum landsins. Stjórnarflokkurinn, Alþýðusamtök Suðvestur-Afríku (SWAPO), hefur verið með tvo þriðju sæta á þingi landsins frá árinu 1994. SWAPO fékk nú 63 þingsæti, fjórtán færri þingmenn en í síðustu kosningunum.

Um helgina birti sjónvarpsstöð og fréttavefur Al Jazeera þátt sinn þar sem rannsóknarblaðamaður þeirra fór á fund með háttsettum namibískum embættismönnum til að reyna að kaupa fisveiðikvóta í Namibíu.

Umræða um spillingu hefur ýtt undir óánægju almennings í garð stjórnvalda.