Illa gengur að koma afgönskum flóttamönnum, sem ríkisstjórnin boðaði að tekið yrði við í síðasta mánuði, hingað til lands. Töfin stafar einna helst af því að neyðarflug erlendra ríkisstjórna frá Afganistan hefur lagst af og reglulegu millilandaflugi hefur enn ekki verið komið aftur á frá alþjóðaflugvellinum í Kabúl.

Ríkisstjórnin tilkynnti í lok ágúst að tekið yrði á móti allt að 120 flóttamönnum frá Afganistan vegna ófriðarástandsins sem skapast hefur þar í landi í kjölfar valdatöku talibana. En sú valdataka gekk afar hratt fyrir sig og glundroði ríkti á flugvellinum í Kabúl þegar örvæntingarfullir heimamenn reyndu að komast úr landi.

„Eftir að erlendur liðsafli fór frá Afganistan hafa möguleikar til að aðstoða fólk við að komast úr landi dvínað mjög. Þeir eru varla til staðar lengur,“ segir Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins.

Hann segir borgaraþjónustuna hafa haft samband við 30 manns sem annað hvort höfðu dvalið á Íslandi eða stundað nám við Alþjóðlega jafnréttisskólann á Íslandi og úr þeim hópum hafi nú þegar tíu manns komið til landsins.

Sveinn H. Guðmarsson upplýsingafulltrúi Utanríkisráðuneytisins.
Mynd/Aðsend

„Miðað við þær viðmiðunartölur sem lagt var upp með, rúmlega hundrað manns og allt að hundrað og tuttugu, þá er óvíst hvað verður með hina,“ segir Sveinn.

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um þá ákvörðun að taka á móti flóttamönnunum segir að einna helst verði horft til fólks úr þremur hópum er taldir eru í bráðahættu eftir valdatökuna.

Í fyrsta lagi er það starfsfólk Atlantshafsbandalagsins og fjölskyldumeðlimir þeirra. Í öðru lagi fyrrverandi nemendur við Alþjóðlega jafnréttisskólann á Íslandi (GRÓ-GEST) og fjölskyldur þeirra. Loks Afganir sem eiga rétt á fjölskyldusameiningu eða eru komnir með dvalarleyfi á Íslandi en geta ekki ferðast á eigin vegum til landsins.

Sveinn segist telja að margir úr hópi starfsfólks Atlantshafsbandalagsins séu þegar farnir frá Afganistan en séu ekki enn komnir hingað til lands.

Samkvæmt Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna hafa 570 þúsund Afganir yfirgefið heimili sín á þessu ári, þar af 80 prósent konur og börn.

Sumir hafa flúið til Kabúl en flestir farið til nágrannalandanna. 300 þúsund manns hafa til dæmis flúið til Pakistan, þar sem 1,5 milljónir afganskra flóttamanna er fyrir. 150 þúsund hafa flúið til Íran.

Ekki náðist í Ásmund Einar Daðason félagsmálaráðherra, sem fer með málefni flóttamanna, við vinnslu fréttarinnar.