Helena Rós Sturludóttir
Föstudagur 5. ágúst 2022
20.02 GMT

Eftir þrettán ára hjónaband árið 2019 áttaði Narfi Ísak Geirsson, þá 38 ára gamall, að hann yrði að koma út úr skápnum. „Ég þurfti bara að losa mig við þessa byrði sem var svolítið að plaga mig,“ segir Narfi.

Narfi var einn nokkurra sem tóku þátt í pallborðsumræðum um það að koma seint út úr skápnum sem fóru fram á Hinsegin dögum í Reykjavík fyrr í vikunni.

Stelpustrákur

Narfi fæddist árið 1981 og er uppalinn í Vestmannaeyjum. Narfi segir það hafa komið snemma í ljós að hann væri stelpustrákur en hann lék sér mikið með dúkkur og átti einna helst vinkonur.

Á fimm ára afmælinu var dúkkuvagn efst á óskalista afmælisbarnsins og segir Narfi foreldra sína hafa haft áhyggjur. „Svo þau sendu mig til sálfræðings,“ segir Narfi og heldur áfram: „Út frá þessu viðtali sagði hann við mömmu og pabba að það væri ekkert að hjá mér, ég væri eðlilegur strákur og það ætti bara að leyfa mér að fá þennan dúkkuvagn. Ég myndi síðan vaxa upp úr þessu. Þau urðu sáttari við það og ég fékk þennan dúkkuvagn.“

Önnur áhugamál

Að sögn Narfa átti hann aldrei neina sérstaka samleið með strákum, bræðrum sínum né öðrum. „Áhugamálin mín voru einhvern veginn allt öðruvísi,“ segir Narfi og bætir við að þeir hafi verið meiri gaurar.

„Ég var meira kannski þessi mjúki maður eins og oft er talað um,“ segir Narfi og hlær. Hann minnist þess þó ekki að hafa hrifist af strákum á uppvaxtarárunum.

Narfi ólst upp í mjög strangtrúuðu samfélagi þar sem samkynhneigð var talin synd og telur hann það mögulega eina ástæðu þess að hann hafi komið seint út úr skápnum.

Kominn út í horn

Tuttugu og fimm ára gamall gekk Narfi í hjónaband og eignaðist þrjú börn með eiginkonu sinni. „Það var ekki fyrr en ég er 38 ára gamall að það kemur einhvern veginn upp að ég get ekki meira,“ segir Narfi og bætir við að hann hafi rætt málið við góðan vin sem hvatti hann að segja makanum frá.

„Mér fannst það fásinna, alveg hræðilegt. Ég hélt að það myndi allt hrynja þannig að ég reyndi bara að loka á þetta. Það var ekki fyrr en ég var komin í þá stöðu að ég þyrfti að fara segja áður en hún myndi heyra það frá einhverjum öðrum,“ segir Narfi og bætir við að hann hafi verið kominn út í horn.

Narfi vinnur með útsaum á heimili sínu.
Fréttablaðið/Eyþór Árnason

Brot á sáttmála

Narfi er sem fyrr segir mjög trúaður og segir hann tilhugsunina um að skemma hjónabandið hafa verið mjög erfiða. „Maður er búinn að taka þessa ákvörðun, er með fjölskyldu og vill ekki skemma það sem maður er búinn að byggja upp og þann sáttmála sem hefur gert gagnvart henni, guði og mönnum. Mér fannst svolítil skömm að gera þetta.“

Aðspurður um viðbrögð eiginkonu hans við fréttunum segir Narfi þetta auðvitað hafa verið sjokk. „Hún tók þessu ágætlega, miðað við aðstæður sko. Hún fékk góða aðstoð sjálf,“ segir Narfi og bætir við að hún staðið rosalega vel með honum.

Fyrrverandi eiginkona Narfa, Guðrún Hlín Bragadóttir, skrifaði á dögunum pistilinn; Hin hliðin á skápnum, sem birtist á vef Vísis.

Hin hliðin á skápnum

Í pistlinum greinir Guðrún frá reynslu sinni af því að eiga maka sem kemur út úr skápnum. „Það er reynsla sem lítið er rætt um og fáir sjá eða átta sig á þeim rússíbana flókinna tilfinninga sem fylgir henni,“ segir Guðrún Hlín meðal annars í pistlinum.

„Að vinna úr þessu, eins og öðrum áföllum, er algjört langhlaup þar sem maður þarf að læra að elska og þekkja sjálfan sig alveg ofan í kjölinn. Margar spurningar þeysast um í kollinum og tilfinningar og efasemdir um sjálfan sig og lífið fram að þessu eru svolítið yfirþyrmandi, svo eru viðbrögð samferðafólks og allar tilfinningarnar sem togast á.

Tilfinningin um svik og að hafa lifað í lélegu leikriti árum saman togast til dæmis á við tilfinningar um að vilja styðja og verja makann á allan hátt,“ segir Guðrún Hlín og bætir við að allar tilfinningar eigi rétt á sér og í raun sé nauðsynlegt að klára allan tilfinningaskalann til að finna að lokum jafnvægi.

„Ég hélt að það myndi allt hrynja þannig að ég reyndi bara að loka á þetta,“ segir Narfi.
Fréttablaðið/Eyþór Árnason

Blendnar tilfinningar

Narfi segir fjölskyldu og vini hafa tekið fréttunum vel. „Þau elska mig eins og ég er,“ segir Narfi og bætir við að það sé þó ekki eingöngu dans á rósum að koma út úr skápnum.

„Ég finn það alveg af því maður var búinn að vera í hjónabandi, það er einhver tómleiki hjá manni. Fólk var alltaf að óska mér til hamingju. Mér fannst alveg pínu óþægilegt að fá þessar hamingjuóskir af því ég var að brjóta hjónaband. Það fannst mér vera svolítið stórt og erfitt,“ segir Narfi.

Honum hafi þótt hamingjuóskirnar yfirþyrmandi þó að það hafi vissulega verið gott að fá þær líka. Þeim hafi fylgt blendnar tilfinningar.

Syngur með kórnum

Aðspurður hvernig það hafi gengið að tengjast inn í hinsegin samfélagið segir Narfi Covid hafa haft talsverð áhrif. Hann hafi þó ákveðið að reyna komast inn í Hinseginn kórinn þar sem hann syngur í dag.

Narfi segist enn vera máta sig við hinsegin samfélagið, það hafi reynst honum erfiðara þar sem hann hafi tilheyrt trúarsamfélagi lengi og að hann upplifi sig svolítið á milli.

„Maður veit ekki alveg hvar maður tilheyrir,“ segir Narfi og bætir við að smátt og smátt sé hann að kynnast fólki í hinsegin samfélaginu.

Athugasemdir