Yfir­völd vinna nú að því að rekja ferðir ís­lenska karl­mannsins sem greindist með kóróna­veiruna (CO­VID-19) fyrr í dag. „Við erum búin að greina þennan sjúk­dóm og nú þurfum við að finna þá ein­stak­linga sem hugsan­lega hafa smitast,“ sagði Þór­ólfur Guðna­son, sótt­varna­læknir á upp­lýsinga­fundi al­manna­varna­deildar ríkis­lög­reglu­stjóra, em­bætti land­læknis og Land­spítala í dag.

Maðurinn smitaðist af veirunni í skíða­ferð á Norður-Ítalíu sem hann fór í á­samt eigin­konu og dóttur sinni daganna 15 – 22. febrúar. Hann veiktist skömmu eftir heim­komu. „Sem betur fer veiktist hann ekki fyrr en hann var kominn heim,“ sagði Þórólfur en smithættan er ekki eins mikill áður en menn veikjast.. Að sögn Þór­ólfs er verið að rann­saka eigin­konu og dóttur mannsins á­samt fleirum. Maðurinn leitaði sjálfur á spítala fyrir tveimur dögum síðan en laust eftir klukkan 13 í dag staðfesti veiru- og sýkla­fræði­deild Land­spítalans að maðurinn væri smitaður af kóróna­veirunni.

Ein­kenni mannsins eru að sögð væg og hann er ekki al­var­lega veikur. Hann dvelur engu að síður á smit­sjúk­dóma­deild Land­spítalans. Að sögn Guð­laugar Rakelar Guð­jóns­dóttur, fram­kvæmda­stjóra með­ferðar­sviðs Land­spítalans, var á­kveðið fyrir fram að fyrsti ein­stak­lingurinn sem myndi greinast hér­lendis yrði lagður þar inn. Smit­sjúk­dóma­deildin er 20 rúma deild og þar eru einnig 5 vel út­búin ein­angrunar­her­bergi. Sam­kvæmt við­bragðs­á­ætlun verður smit­sjúk­dóma­deildin nýtt fyrst fyrir þá sem smitast af kóróna­veirunni.

Hættu­stigi hefur verið lýst yfir en Þór­ólfur bað fólk engu að síður um að halda ró sinni og fara eftir þeim fyrir­mælum og leið­beiningum sem hafa verið gefnar út um hrein­lætis­að­gerðir.

„Við munum skerpa á þessum leið­beiningum og síðan verðum við að sjá hvort ein­hverjir fleiri leið­beiningar munu koma út. Það má alveg gera ráð fyrir fleiri smitum, hversu mörgum er ó­mögu­legt að segja,“ sagði Þór­ólfur á fundinum.