Drengur sem kom til Ís­lands sem fylgdar­laust barn er á meðal þeirra sem vísað var úr landi í fyrrinótt. Tals­maður drengsins gagn­rýnir hæga­gang Út­lendinga­stofnunar og vill meina að niður­staða í máli drengsins hefði verið öðru­vísi ef unnið hefði verið hraðar.

Drengurinn, sem er frá Afgan­istan, kom til landsins rétt fyrir jól í fyrra en þá var hann sau­tján ára, að sögn Davor Purusic, tals­manni drengsins. „Hann var þá sau­tján ára og fylgdar­laust barn,“ segir hann. Í mars hafi drengurinn hins vegar orðið á­tján ára og staða hans gjör­breyst í kjöl­farið.

Þegar drengurinn kom til landsins kom í ljós að hann hefði viður­kennda stöðu flótta­manns í Grikk­landi. „Út­lendinga­stofnun fór af stað með aldurs­greiningu, sem ég mót­mælti af því að það lá fyrir í málinu að Grikkir fram­kvæmdu aldurs­greiningu og ferða­skil­ríki hans frá Grikk­landi var út­gefið á þeim grund­velli,“ segir Davor.

Út­lendinga­stofnun hætti við aldurs­greiningu

Út­lendinga­stofnun hafi metið það svo­leiðis að aldurs­greiningu Grikkja hafi ekki verið greystandi og því hafi þeir fram­kvæmt sína eigin aldurs­greiningu.

„Hann fór í tann­mynda­töku og hluta af því sem fylgir aldurs­greiningu, og viku eða tíu dögum eftir að hann varð á­tján, þá fékk ég til­kynningu um að Út­lendinga­stofnun hefði hætt við aldurs­greiningu og höfðu þá fulla trú á grískum stjórn­völdum,“ segir Davor.

Þegar hann hafi orðið á­tján ára hafi mál hans verið með­höndlað eins og hann væri full­orðinn einstaklingur.

Davor mót­mælti og sagði megin­reglu laganna að hags­munir barna þyrfti að vera að leiðar­ljósi. „En þeir virtu það að vettugi og af­greiddu málið sem full­orðinn ein­stak­ling.“

Davor hafi því skrifað greinar­gerð og mót­mælti á­kvörðun Út­lendinga­stofnun en Kæru­nefnd út­lendinga­mála hafi stað­fest á­kvörðunina í kjöl­farið.

Raf­ræn skil­ríki hafi flækst fyrir

Málið hafi flækst enn meira í sumar, en þá var reglu­gerð breytt þannig að í stað þess að Út­lendinga­stofnun, kæru­nefnd og lög­regla birti á­kvarðanir eru þær sendar til tals­manna ein­stak­linganna. Það sé gert í gegnum Signet, sem er öruggt kerfi þar sem maður notar raf­ræn skil­ríki til að skrá sig inn.

Davor segist hafa verið er­lendis þegar á­kvörðun í máli drengsins hafi verið sent til hans og því hafi hann ekki getað séð niður­stöðuna, enda virki raf­ræn skil­ríki ekki þar sem hann var staddur.

„Þegar ég fékk þessa á­kvörðun var ég staddur er­lendis og ég í raun komst ekki að þessari á­kvörðun fyrr en 7-8 dögum seinna, þegar réttindi hans hafi hans til að sækja um frest höfðu runnið út.“

Hann segist enga leið fyrir hann að komast inn í á­kvörðunina og því ekki vitað hvort honum hefði verið synjað eða hvað. „Ég vissi ekki einu sinni efnið.“

„Ég hef passað alla tíð að til­kynna bæði Út­lendinga­stofnun og kæru­nefnd hve­nær ég fer er­lendis og lent í vand­ræðum. Ég hef gert at­huga­semdir við þessa fram­kvæmd og allt en það bara gerir ekkert, þau bara halda þessu á­fram.“

Staða drengsins eigi ekki að breytast

Davor segir að sam­kvæmt hans túlkun á lögunum eigi réttindi drengsins ekki að hafa breyst þegar hann varð á­tján ára. „Ef ein­stak­lingur kemur til landsins, þá á hann ekki að gjalda þess að stjórn­völd taka langan tíma að á­kveða um­sóknina hans.“

Hann segir að meta eigi um­sókn drengsins frá því hvernig á­standið var þegar hann kom fyrst til landsins, þegar hann var sau­tján ára sem sagt.

„Þetta er mín túlkun og mér skilst að það séu margir lög­menn sam­mála þessari túlkun,“ segir Davor.

Undir­býr dóms­mál fyrir drenginn

Davor segir dóms­mál vera í undir­búningi fyrir hönd drengsins. „Ég ætla að leggja fram stefnu á grund­velli aldurs­greiningarinnar og líka þessar fram­kvæmdar, þeir eru eigin­lega að ræna hann hans réttindum en núna er hann fluttur og ég ætla að halda á­fram og leggja þetta í hendur dóm­stóla að skera úr þessi hvort þetta sé lög­mætt eða ekki.“

Hér að neðan má sjá greinargerð Davors í máli drengsins:

„Þegar litið er til niður­stöðu Lands­réttar í máli nr. 599/2020 má skýrt sjá að þegar um er að ræða tafir í máli sem slíku ber stjórn­völdum að bera hallann af töfinni. Sam­kvæmt niður­stöðu Lands­réttar eru slíkir tafir ekki á á­byrgð um­sækj­enda um al­þjóð­lega vernd. Með þessa af­stöðu að leiðar­ljósi er ljóst að það er ekki kæranda til frá­dráttar að ís­lensk stjórn­völd tóku ekki mark á fram­burði hans eða niður­stöðu grísku aldurs­greiningarinnar sem seinna var skyndi­lega tekin gild án frekari at­huga­semda. Um­sókn kæranda barst Útl. í desember 2021 en ætla má að lík­lega hefði náðst að klára úr­vinnslu um­sóknar með eðli­legum hætti ef Útl. hefði strax tekið á­kvörðum að fram­kvæma ekki aldur­greiningu hér á landi og viður­kenna niður­stöðu aldurs­greiningar frá Grikk­landi eins og að lokum var gert.“