Lögreglu var tilkynnt um innbrot og þjófnað úr íbúð í miðborginni rétt fyrir hálfníu í gærkvöldi. Íbúi á 10. hæð kom að kom að opinni útihurð íbúðar sinnar og á sama tíma kom maður út úr íbúðinni með poka af verðmætum. Hann náði að hlaupa á brott. Útihurðin hafði verið spennt upp. Þetta kom fram í tilkynningu frá lögreglu.

Klukkan sex í gær var maður handtekinn í Laugardal grunaður um vörslu og sölu fíkniefna og brot á lyfja- og vopnalögum. Hann var vistaður í fangageymslu lögreglu.

Rétt eftir hálfsjö var tilkynnt um unga konu í mjög annarlegu ástandi í Hlíðunum. Hún var handtekin vegna gruns um vörslu fíkniefna og brot á lyfjalögum og vistuð í fangageymslu lögreglu.

Rétt eftir níu í gærkvöldi var bifreið stöðvuð í Breiðholti. Ökumaðurinn hafði verið sviptur ökuréttindum og var eftirlýstur vegna annars máls. Hann var vistaður í fangageymslu lögreglu.

Korter yfir tíu var bifreið stöðvuð í miðborginni. Ökumaðurinn er er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og brot á vopnalögum, en hann framvísaði stórum hníf.

Korter yfir tvö í nótt var ökumaður tekinn fyrir ölvunarakstur og akstur án ökuréttinda í Hafnarfirði. Rétt fyrir hálfþrjú í nótt var svo ofurölvi maður sem hafði verið farþegi í bíl ölvaða ökumannsins líka handtekinn. Maðurinn sagði lögreglu ekki hvar hann hélt til þannig að ekki var hægt að koma honum heim. Hann var því vistaður í fangageymslu í nótt.

Hálftvö í nótt var svo annar ökumaður tekinn fyrir ölvunarakstur í Breiðholti.

Rétt fyrir hálffimm í nótt var tilkynnt um brothljóð í miðborginni. Ofurölvi erlendur ferðamaður hafði brotið rúðu og skorist á hendi. Hann var fluttur á slysadeild til aðhlynningar.

Um korter í tíu var tilkynnt um umferðaróhapp í Breiðholti. Bifreið hafði verið ekið í veg fyrir aðra. Annar ökumaðurinn var fluttur á slysadeild vegna eymsla í hendi.

Klukkan hálfsex í gær var ótryggð bifreið stöðvuð á Krýsuvíkurvegi. Skráningarnúmerin voru klippt af.