Í nýrri úttekt Capacent á starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs er kolsvört mynd dregin upp af rekstri garðsins. Meðallaun 54 stöðugilda við þjóðgarðinn voru um það bil 812 þúsund krónur á mánuði. Eins og Fréttablaðið greindi frá í dag fór reksturinn verulega fram úr fjárheimildum á síðasta ári. Framúrkeyrslan nam 190 milljónum króna, eða 50 prósent umfram það sem gert var ráð fyrir. Bæði framkvæmdastjóri þjóðgarðsins Þórður H. Ólafsson og Ármann Höskuldsson stjórnarformaður hafa látið af störfum.

Úttektin var gerð í kjölfar samnings umhverfis- og auðlindaráðuneytisins við Capacent. Verkefni Capacent var að gera úttekt á starfsemi þjóðgarðsins með tilliti til hvernig ákvarðanir um fjárútlát hafa verið teknar og hvaða þættir í starfseminni hafa valdið því að rekstur hefur ekki verið í samræmi við fjárheimildir. 

Mikil óeining hefur ríkt á milli stjórnar og framkvæmdastjóra þjóðgarðsins, samkvæmt niðurstöðum Capacent. Einnig segir að verulegar brotalamir hafi verið í allri stjórnun og rekstrareftirliti í daglegum rekstri þjóðgarðsins.

Fram kemur að samþykki stjórnar liggi hvorki fyrir á fjárhags- og rekstraráætlun rekstrarsvæða fyrir árið 2017. Fundið er að því að stjórn þjóðgarðsins hafi ekki nægjanlega markvisst óskað eftir upplýsingum um rekstur þjóðgarðsins. „Einstaka stjórnarmenn hafa óskað eftir upplýsingum, í þeim tilvikum hefur stjórn fengið takmarkaðar eða óaðgengilegar upplýsingar.“

Meginástæðu þess að framúrkeyrslan var þetta mikil 2017 má rekja til launagreiðslna. Framúrkeyrsla launa nam 120 milljónum króna í fyrra vegna fjölgunar stöðugilda og hækkunar á yfirvinnu- og álagsgreiðslum. Þá hafi aðkeypt sérfræðiþjónusta einnig farið fram úr áætlun, sem og innkaup vegna rekstrarvara. Á meðal þess sem fram kemur er að meðallaun 54 stöðugilda við þjóðgarðinn voru 812 þúsund krónur á mánuði 2017, eða meira en 100 þúsund krónum meira en meðallaun 37 stöðugilda 2015. Launin hafa mest hækkað í yfirstjórn þjóðgarðsins.

Þjóðgarðurinn gerði leigusamning við landeigendur á jörðinni Þverá sem hljóðaði upp á 17,3 milljónir króna í fyrra, án þess að hafa fengið formlegt samþykki stjórnar. Engar ráðstafanir voru gerðar til að fjármagna samninginn, að því er fram kemur í niðurstöðunum.

Capacent kemst að þeirri niðurstöðu að yfirbygging stofnunarinnar sé umfangsmikil og að hún sé með dreifða starfsemi. Miðlæg skrifstofa sé í Reykjavík en að hún hafi ekki náð að sinna nauðsynlegri samræmingu í stefnumótun, áætlanagerð og í daglegum rekstri stofnunarinnar. 

„Í stjórnun þjóðgarðsins hefur þess misskilnings gætt að sparnaður í skrifstofuhaldi komi kjarnastarfsemi og rekstri svæða fjárhagslega vel. Slíkt hefur þvert á móti bitnað á rekstri þjóðgarðsins.“ 

Þá kemur fram að fjárheimild til að ráða fjármálastjóra hafi fengist árið 2011 hafi hann ekki verið ráðinn fyrr en í árslok 2016.

Trúnaðarbrestur hefur ríkt á milli stjórnar og framkvæmdastjóra, samkvæmt úttektinni. Samstöðu og undirbúningi hefur verið ábótavant í ákvarðanatöku í stórum málum. Trúnaðarbresturinn hefur verulega bitnað á stjórnsýslu og ákvarðanatöku innan þjóðgarðsins. „ Mikill skortur hefur verið á formfestu í allri starfsemi þjóðgarðsins. Slíkt má sjá í bókunum og fundargerðum stjórnar.“

Fram kemur að samskiptaleysi og trúnaðarbrestur á milli framkvæmdastjóra og stjórnar hafi leitt til þess að garðurinn hafi skuldbundið sig fram úr hófi. Framkvæmdastjóri virðist hafa misst trú og traust starfsmanna. 

„Það er lýsandi fyrir þá stöðu sem stjórnun Vatnajökulsþjóðgarðs er komin í að stjórnarformaður finni sig knúinn að leita til annarrar lögmannsstofu en þeirrar sem framkvæmdastjóri hefur leitað til varðandi lögfræðileg málefni. Undir eðlilegum kringumstæðum ættu stjórn og framkvæmdastjóri að vinna saman að hagsmunum þjóðgarðsins og engin þörf að vera fyrir það að stjórn hafi sérstakan lögmann í því að gæta sinna hagsmuna.“