Fyrstu merki um kólnun á fast­eigna­markaði eru farin að birtast. Á höfuð­borgar­svæðinu fór fram­boð í­búða minnkandi út júlí þvert á væntingar, en í ágúst hefur það hins vegar aukist hratt eða úr 700 í 905 á að­eins 20 dögum. Þetta segir í mánaðar­skýrslu hag­deildar Hús­næðis- og mann­virkja­stofnunar.

Segir að kaup­samningar hafi ekki verið færri síðan í apríl 2015 miðað við sex mánaða meðal­tal. Þótt í­búðum sem seljist yfir á­settu verði hafi ekki fækkað mjög, þá hafi orðið tals­verð fækkun á í­búðum sem seljast 5 prósentum eða meira yfir á­settu verði. Í­búðir seljist þannig síður mikið yfir á­settu verði.