Búast má við fremur hægri breyti­legri átt í dag og þá verður skýjað að mestu á landinu, en þó yfir­leitt þurrt. Einnig má búast við þoku­móðu sums staðar sunnan- og vestan­til fram eftir morgni.

Þá verður hægt vaxandi norð­austan­átt þegar líður á daginn, 5 til 13 m/s og fer að rigna suð­austan­til á landinu undir kvöld. Rigning eða slydda á Austur­landi seint í kvöld, en einnig norð­austan­lands í nótt.

Þá kólnar í veðri og má búast við snjó­komu til fjalla, en það er einkum vara­samt fyrir þá sem hafa skipt yfir á sumar­dekk.

Búast má við norð­lægari vindum á morgun, annan í páskum. Dá­lítil snjó- eða slyddu­él norðan­til á landinu og hiti yfir­leitt 0 til 3 stig. Mun betra veður­út­lit er sunnan­lands á morgun, en þar má víða búast við sólar­glennum og getur hiti farið í 10 stig þar sem best lætur, en þegar líður á morgun­daginn má búast við síð­degis­skúrum á stöku stað.

Veður­horfur á landinu næstu daga

Á þriðju­dag:
Aust­læg átt, 8-15 m/s og slydda eða snjó­koma N-til og hiti ná­lægt frost­marki, en rigning í öðrum lands­hlutum og hiti 2 til 7 stig.

Á mið­viku­dag:
Suð­aust­læg átt, 5-10 m/s og þurrt í fyrstu, en rigning í flestum lands­hlutum þegar líður á daginn. Hlýnandi veður.

Á fimmtu­dag (sumar­dagurinn fyrsti):
Aust­læg átt, 8-15 m/s og skýjað með köflum, hvassast syðst, en þoku­bakkar við A-ströndina. Hiti 7 til 14 stig, hlýjast V-lands.

Á föstu­dag:
Á­kveðin austan­átt og rigning með köflum, en úr­komu­lítið fyrir norðan. Fremur hlýtt í veðri.

Á laugar­dag:
Út­lit fyrir norð­austan­átt með slyddu eða rigningu á N-verðu landinu, en bjart­viðri syðra og kólnandi veður.