Hugsanlegt er að afurðaverð síldar og kolmunna muni lækka á komandi árum vegna þess að Marine Stewardship Council (MSC) telur veiðar á stofninum ekki lengur sjálfbærar. MSC tilkynnti fyrir skömmu að norsk-íslenski síldarstofninn muni missa sjálfbærnivottun sína frá og með næstu áramótum.
Hið sama gildir um kolmunna sem veiddur er í Norður-Atlantshafi. Ástæða þess að veiðar á kolmunna og síld eru taldar ósjálfbærar er stöðug ofveiði á undanförnum árum, en strandríki Norður-Atlantshafs – Ísland, Færeyjar, Noregur, Evrópusambandið, Grænland og Bretland – hafa ekki náð samkomulagi um skiptingu aflaheimilda.
Áhrifin á tegundirnar tvær eru þó með ólíkum hætti. Síld er að mestu unnin til manneldis, á meðan kolmunni er fyrst og fremst nýttur til framleiðslu á fiskimjöli.
Þar sem norsk-íslenski síldarstofninn hefur ekki veiðst í verulegu magni um langt skeið mun verðlækkun vegna afnáms sjálfbærnivottunar ekki hafa teljandi áhrif á íslenska þjóðarbúið.
Kolmunni er hins vegar mikið til nýttur til framleiðslu á fiskimjöli sem er síðan notað til framleiðslu á fóðri fyrir eldislax. Vöxtur í laxeldi hefur verið mikill á fyrri árum og framleiðsla á fiskimjöli úr kolmunna verið einkar arðbær af þeim sökum. Hins vegar þarf hráefni fóðurs til laxeldis að vera MSC-vottað svo eldislaxinn geti hlotið sama stimpil. Því er einsýnt að eftirspurn þess kolmunna sem íslenskar útgerðir koma með að landi muni dragast nokkuð saman af þessum sökum.