Veðurstofa Íslands hefur gefið út gula viðvörun  vegna veðurs á Ströndum og Norðurlandi vestra og eystra.

Talsverð snjókoma er á svæðinu, mest á Tröllaskaga og líkur eru á samgöngutruflunum, einkum á fjallvegum. Óvissustig er vegna snjóflóða og hættustig á Siglufirði.

Annars er spáð norðan og norðaustan 8 til 15 metrum á sekúndu í dag. Él á norðurhluta landsins en bjart sunnan heiða.

Á morgun bætir heldur í vind og ofankomu fyrir norðan, en annars svipað veður.
Frost víða 1 til 6 stig, en það er einna helst að sjá að hiti nái að skríða yfir frostmark syðst á landinu.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag:
Norðan 13-20 metrar á sekúndu og snjókoma eða éljagangur, hvassast suðaustanlands, en skýjað með köflum og þurrt að kalla sunnan heiða. Frost víða 0 til 5 stig, en sums staðar frostlaust við sjávarsíðuna.

Á sunnudag:
Norðan 8-15 metrar á sekúndu og él, en léttskýjað sunnan- og vestanlands. Frost 1 til 8 stig, minnst syðst.

Á mánudag:
Norðankaldi og víða dálítil él, en austlægari syðst og líkur á snjókomu þar. Harðnandi frost.

Á þriðjudag og miðvikudag:
Útlit fyrir áframhaldandi norðaustlæga átt með snjókomu eða éljum, en dregur heldur úr frosti.
Hugleiðingar veðurfræðings

Köldu norðlægu áttirnar með ofankomu fyrir norðan og austan eru ekkert að fara að gefa eftir næstu daga, en það er einna helst að sjá að hiti nái að skríða yfir frostmark syðst á landinu.