Hádegismatur starfsfólks kosninga í Reykjavík var undir væntingum, kjörstaðir voru sumir ískaldir og venju samkvæmt var ekki hlustað á ábendingar um fatlaða kjósendur frá fyrri kosningum.

Þetta er meðal þess sem sjá má í skýrslum yfirkjörstjórna í kjördæmunum sex, sem skilað var inn til landskjörstjórnar í vikunni. Má finna nokkuð greinargóða lýsingu á því hvað starfsfólk kosninga gekk í gegnum á kosningadag. Eins og frægt er orðið voru atkvæði í Norðvesturkjördæmi ekki innsigluð, sem hefur eðlilega vakið mesta athygli. En skýrslurnar segja fleiri sögur.

Í Reykjavíkurkjördæmi suður voru bókaðar athugasemdir um kulda í Norðlinga- og Breiðholtsskóla. Árbæjarskóli gat ekki annað kjósendum með bílastæði og ekki var hlustað á athugasemdir í Austurbergi um fatlaða kjósendur sem gerðar voru árið 2017. Þrátt fyrir að athugasemdir lægju fyrir voru klefarnir enn litlir og tjöld fyrir klefana ófullnægjandi. Þá vantaði sérfæði vegna ofnæmis hjá starfsmanni þar á bæ.

Þá var biluð hurðarpumpa í Breiðholtsskóla, merkingar voru sérstaklega lélegar á húsi og við götur í kring. Margir kjósendur fóru nefnilega á vitlausan kjörstað, enda var kjörstaður ekki auglýstur í blöðum samkvæmt venju. Í Kringlunni var nokkur óánægja hjá starfsfólki enda mikill erill og kjörstaðurinn of lítill, í opnu rými með tilheyrandi hávaða og hljómburði. Bent var á að aðgengi fyrir fatlaða væri erfitt.

Í Breiðholtsskóla bætti biluð hurðapumpa gráu ofan á svart.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Í skýrslu yfirkjörstjórnar Suðurkjördæmis kom fram að netsamband væri ekki nægilega gott í öllum kjördeildum í kjördæminu. Slíkt væri bagalegt vegna skanna á rafrænum skilríkjum sem voru í rugli framan af degi um allt land.

Við yfirferð yfirkjörstjórnar Suðurkjördæmis á kjörgögnum frá Vestmannaeyjum kom í ljós að nokkuð vantaði upp á að frágangur væri fullnægjandi. Voru nokkur hundruð ónotaðir kjörseðlar í poka sem hafði verið settur utan um kjörkassa. Þá vantaði lykil að kjörkassa. Var athugasemdum komið á framfæri.

Á Akureyri var skýrsla send til landskjörstjórnar upp úr kl. 14.00 en hún var upphaflega send til Hagstofu fyrir mistök. Yfirkjörstjórn bauð upp á veitingar frá Snæbirni Kristjánssyni, matreiðslumeistara og Mat og mörk. Þá var bókað um jákvæðni og frábæran aðbúnað í Brekkuskóla.

Einhver ruglingur var með atkvæði hjá yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis en eftir að farið var aftur yfir atkvæði Viðreisnar kom í ljós að átta atkvæði sem tilheyrðu Sjálfstæðisflokki og eitt atkvæði sem tilheyrði Framsóknarflokki leyndust í bunka Viðreisnar. Mannleg mistök höfðu átt sér stað við talningu atkvæða undir morgun og níu atkvæði höfðu ranglega lent í atkvæðabunka Viðreisnar.