Kol­beinn Óttars­son Proppé, þing­maður Vinstri grænna, ætlar að gefa kost á sér í annað sætið í for­vali flokksins í öðru hvoru Reykja­víkur­kjör­dæmanna. Kol­beinn gaf fyrst kost á sér í for­vali flokksins í Suður­kjör­dæmi en hafnaði þar í fjórða sæti, sem hann síðan hafnaði.

Kol­beinn til­kynnti þetta á Face­book í dag. Eftir að hann tapaði í for­valinu í Suður­kjör­dæmi skoraði fjöldi flokks­manna á hann að reyna fyrir sér í sínu eigin kjör­dæmi, Reykja­vík suður, sem hann nú ætlar að gera. Hann komst inn á þing af öðru sæti listans í síðustu kosningum en listann leiddi Svan­dís Svavars­dóttir heil­brigðis­ráð­herra. Hún mun að öllum líkindum leiða listann aftur í ár.

„Yfir­lega síðustu vikna hefur fært mér enn frekar heim sanninn um það, sem þó hefði átt að vera mér ljóst, að ég brenn enn fyrir pólitík. Ég hef löngun og vilja til að halda á­fram að starfa með því góða fólki sem hefur leitt hreyfinguna og ís­lenskt sam­fé­lag síðustu ár,“ skrifar Kol­beinn í til­kynningunni.

Hann segist hafa ákveðið að prófa að gefa kost á sér í Suður­kjör­dæmi í ár því hann hafi langað að leiða lista Vinstri grænna í næstu kosningum og þannig hafa meiri á­hrif. „Ég tók á­hættu með þessu og hún gekk ekki upp. Sam­keppnin var enda mikil við frá­bært fólk og efstu sæti listans skipa öflugar konur.“

Tilkynning um framboð Ég hef tekið þá ákvörðun að gefa kost á mér í 2. sætið á lista Vinstri grænna í öðru hvoru...

Posted by Kolbeinn Óttarsson Proppé on Saturday, 24 April 2021

Framboðsfrestur fyrir forval Vinstri grænna í Reykjavík rennur út á morgun en forvalið sjálft fer fram 16. til 19. maí.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mun skipa fyrsta sæti á lista flokksins í Reykjavík norður en aðrir sem hafa gefið kost á sér í annað sæti í Reykjavík eru þau Steinunn Þóra Árnadóttir, sitjandi þingmaður Vinstri grænna, Daníel E. Arnarson, framkvæmdastjóri Samtakanna 78, Elva Hrönn Hjartardóttir, sérfræðingur á þróunarsviði hjá VR, og Andrés Skúlason, fyrrum oddviti í Djúpavogshreppi.