Fjölmargir lögðu leið sína á Hafnarbryggjuna á Siglufirði til að berja varðskipið Freyju augum þegar það kom til hafnar í fylgd varðskipsins Týs, þyrlu Landhelgisgæslunnar og björgunarskipa Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

Kolbeinn Óttarsson Proppé, fyrrverandi þingmaður Vinstri grænna, var sjálfur á staðnum í björgunarsveitargallanum á höfninni þar sem hann er nýliði í björgunarsveitinni.

„Verandi nýliði í björgunarsveitinni fékk ég það ábyrgðarhlutverk að standa í galla,“ skrifar Kolbeinn á Facebook í dag sem stóð í slyddunni og rokinu og hlýddi á ræður Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra, og Elíasar Péturssonar, bæjarstjóra Fjallabyggðar á bryggjunni.

Þegar varðskipið lagðist að bryggju á Siglufirði á öðrum tímanum í dag skaut séraðgerðarsveit Landhelgisgæslunnar þremur heiðursskotum úr fallbyssu.

„Freyja er fögur, flögnuð þó aðeins þar sem málningin þoldi ekki alveg ferðina yfir hinn úfna sjó,“ lýsir Kolbeinn og segir það ekki verra að ytra byrðið sé aðeins rúnum rist, um það geti hann vitnað.

Sjálfur segist Kolbeinn sitja við umsóknarskrif þessa dagana. „Úr einu í annað, það er alltaf best.“

Freyja flagnaði aðeins á leiðinni frá Rotterdam til Íslands.
Mynd: Landhelgisgæslan

Freyja lofar góðu

Fréttablaðið ræddi við Einar H. Valsson, skipherra á Freyju, segir sagði siglinguna hafa gengið vel.

„Tilfinningin er mjög góð og eiginlega óraunverulegt að vera kominn af stað,“ sagði Einar.

Freyja kemur í stað varðskipsins Týs og Einar segir eiginlega ósanngjarnt að bera skipin saman.

„Freyja er um fjórum sinnum stærri en Týr og allt öðruvísi. Skipið er mun betur búið en Týr hvað varðar stjórnbúnað og tæki,“ segir skipherrann sem hefur siglt í öllu veðri og vindum.

Freyja lofi góðu. Áhöfn Freyju er spennt fyrir heimkomunni. „Freyja verður mikil og góð viðbót við björgunargetu Landhelgisgæslunnar og mikilvægur hlekkur í almannavarnakeðju landsins,“ segir Einar.

Guðni Th. Jóhannesson og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttur fluttu ávörp við bryggjuna.
Mynd: Landhelgisgæslan