Kolbeinn Óttarsson Proppé þingmaður Vinstri grænna hefur fest kaup á íbúðarhúsnæði á Siglufirði, hann tilkynnti um kaupin á Facebook fyrir skömmu.

Kolbeinn er þingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður en fasteignaviðskiptin þykja benda til að hann íhugi framboð í Norðausturkjördæmi fyrir næstu kosningar.

Margir spenntir fyrir oddvitasæti Steingríms

Steingrímur J. Sigfússon hefur verið Oddviti Vinstri grænna í kjördæminu frá stofnun flokksins en hann tilkynnti nýverið að yfirstandandi kjörtímabil verði hans síðasta.

Uppalinn fyrir norðan

Kolbeinn er fæddur í Reykjavík en bjó fyrir norðan á æskuárum sínum, fyrst á Dalvík en á Siglufirði frá tíu ára aldri og fram á táningsaldur, en faðir hans var þá bæjarstjóri á Siglufirði eitt kjörtímabil.

Í færslu um íbúðarkaupin á Facebook segir Kolbeinn að fátt sýni betur þann viðsnúning sem orðið hafi á lífi hans en íbúðakaupinn. „Kassagítarinn er ekki lengur það verðmætasta sem ég á, eins og lengi var. Og íbúðin er á Siglufirði, kominn heim,“ segir Kolbeinn og bætir við: „Ég hlakka óendanlega til að komast að geta verið eitthvað þarna, það verður unaðslegt. Lífið er ljúft.“

Fréttablaðið hefur ekki náð tali af Kolbeini eftir að færsla hans um húsnæðiskaupin birtist.

Kassagítarinn er ekki lengur það verðmætasta sem ég á, eins og lengi var.

Bjarkey sækist eftir oddvitasætinu

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður VG og annar tveggja þingmanna flokksins í kjördæminu hefur þegar tilkynnt að hún sækist eftir fyrsta sæti á framboðslista flokksins í næstu kosningum. Hún skipaði síðast annað sæti flokksins á eftir Steingrími fyrir síðustu kosningar. Bjarkey tilkynnti þetta á Facebook 4. nóvember síðastliðinn. „Býð fram krafta mína áfram og vona að ég fái til þess stuðning," sagði Bjarki um ákvörðun sína á Facebook þann 4. nóvember síðastliðinn.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir hefur setið á þingi fyrir VG síðan 2013. Hún er þingflokksformaður flokksins og skipaði 2. sæti á lista VG í norðausturkjördæmi fyrir síðustu Alþingiskosningar. Hún vill nú taka við keflinu af Steingrími.

Oddvitinn í Norðurþingi einnig í kjöri

Nokkrum dögum eftir að Steingrímur tilkynnti brotthvarf úr stjórnmálum tilkynnti Óli Halldórsson, varaþingmaður og oddvit flokksins í Norðurþingi að hann gefi kost á sér til að leiða lista VG í Norðausturkjördæmi fyrir næstu kosningar.