Loft­gæði á höfuð­borgar­svæðinu hafa mælst annað hvort slæm eða miðlungs á nokkrum stöðum í dag. Sam­kvæmt upp­lýsingum frá heil­brigðis­eftir­liti Reykja­víkur er á­stæða mengunarinnar ekki svif­ryk eins og svo oft áður heldur brenni­steins­vetni sem kemur frá virkjunum á Hellis­heiði og Nesja­völlum og köfnunar­efnis­díoxíðs sem kemur ein­göngu frá út­blæstri bensín- og dísel­bif­reiða.

„Þetta er því miður eitt­hvað sem við bjuggumst við að gæti gerst miðað við veðrið sem er í kortunum,“ segir Svava S. Steinars­dóttir, heil­brigðis­full­trúi hjá Heil­brigðis­eftir­liti Reykja­víkur, í sam­tali við Frétta­blaðið í dag.

Svava segir að í dag sé það efni sem helst sé að valda vanda eins og staðan er núna sé nitur­díoxíð, og þau hafi minni á­hyggjur af svif­ryki enn sem komið er.

„Það sem er ó­vænt er að brenni­steins­vetni (h2s) er hátt, en það kemur frá út­blæstri jarð­hita­virkjananna á Hellis­heiði og á Nesja­völlum,“ segir Svava. En þar er gufu og vatni dælt upp og sam­hliða því losnar mikið af gasi.

„Það er brenni­steins­vetnið sem mælist í mestu magni í þessa stundina,“ segir Svava.

Á myndinni hér að neðan má sjá hvar loft­gæði mælast hvað verst í borginni sam­kvæmt nýjustu mælingum en fyrr í dag mældust þau einnig slæm í Fossa­leyni í Reykja­vík og Dal­smára í Kópa­vogi.

Loftæði voru slæm á tveimur stöðvum klukkan 12.
Mynd/Loftgæði.is

Mengun frá virkjunum á Nesjavöllum og Hellisheiði

Svava segir að á­stæða þess að loft­gæðin mælist verri hér vegna brenni­steins­vetnisins en hjá virkjunum sjálfum sé að það helst í einum strók í stað þess að dreifa sér.

„Rann­sóknir hafa sýnt að stundum hrein­lega skríður strókurinn fram hjá mæli­stöðvunum. Það læðist að mér sá grunur þegar ég kíki á mælingarnar að þetta gæti verið að koma meira frá Nesja­völlum í dag en frá Hellis­heiðinni. En það er erfitt að segja til um það, það eru báðar virkjanirnar sem leggja til þessa mengun,“ segir Svava.

Gildi brenni­steins­vetnis sem mælast við stöðvarnar í Reykja­vík eru á milli 52 og 95 mí­krógrömm per rúm­metra en Svava segir að eitrunar­á­hrif vegna brenni­steins­vetnis komi þó ekki fram fyrr en við 15 þúsund mí­krógrömm per rúm­metra.

„Þannig við erum að fá efnið í miklu lægri styrk í Reykja­vík heldur en telst hættu­legt, en auð­vitað er alltaf ó­æski­legt að þessi efni séu í meira í magni. Þau eru til­kynningar­skyld þegar þau fara yfir 150 mí­krógrömm per rúm­metra í þrjár klukku­stundir sam­fellt. Einnig má hlaupandi meðal­tal 24 klukku­stunda ekki fara yfir 50 mí­krógrömm per rúm­metra,“ segir Svava.

Hún segir að hreinsi­virki sé að finna við stöðina á Hellis­heiði sem taki um 80 prósent af út­blæstri brenni­steins­vetni en ekkert slíkt sé að finna við stöðina á Nesja­velli.

Kok­teil­á­hrif loft­mengunar

Hún segir vandann þó vera meiri þegar magn brenni­steins­vetnis eykst sam­hliða aukningu annarra mengandi efna í loftinu, eins og köfnunar­efnis­díoxíðs.

„Það er það sem hefur gerst í dag og þá geta auð­vitað þau sem eru við­kvæm í öndunar­færum fundið fyrir meiri á­hrifum, svo­kölluð kok­teil­á­hrif,“ segir Svava.

Bæði efnin valda ertingu í öndunar­færum og bendir Svava á að köfnunar­efnis­díoxíðs myndast ein­göngu í lofti á höfuðborgarsvæðinu vegna út­blásturs bif­reiða.

„Það er engin önnur upp­spretta, enginn iðnaður og ekkert annað sem er að losa þetta mengunar­efni. Eina leiðin til að draga úr ó­æski­legum á­hrifum þessarar mengunar er að draga úr um­ferð. Það er ekki hægt að sópa þessu burt,“ segir Svava að lokum.

H2S er brennisteinsvetni og NO2 köfnunardíoxíð
Mynd/Loftgæði.is

Mikilvægt að nýta sér vistvæna samgöngumáta

Greint var frá því í gær að sam­kvæmt veður­spám næstu daga sé gert ráð fyrir þurru og hæg­látu veðri á höfuð­borgar­svæðinu og í slíkum að­stæðum geta aukist líkur á loft­mengun vegna köfnunar­efnis­díoxíðs (NO2). Köfnunar­efnis­díoxíð­mengun kemur frá út­blæstri bif­reiða og er mest á morgnana og í eftir­mið­daginn þegar um­ferð er mest. Síðast­liðinn sunnu­dag og mánu­dag mældist styrkur köfnunar­efnis­díoxíðs hár við stórar um­ferðar­æðar.

Köfnunar­efnis­díoxíð veldur ertingu í lungum og öndunar­vegi. Þeir sem eru við­kvæmir fyrir í öndunar­færum, og börn ættu að forðast úti­vist í lengri tíma og tak­marka á­reynslu í ná­grenni stórra um­ferðar­gatna. Besta leiðin til þess að reyna að bregðast við loft­mengun er að fólk nýti sér vist­væna sam­göngu­máta, eins og að hjóla, ganga eða taka Strætó á milli staða.

Hægt er að fylgjast með styrk köfnunar­efnis­díoxíðs (NO2) og annarra mengandi efna á síðunni loft­ga­edi.is og má þar sjá kort yfir mælistaði.