Loftgæði á höfuðborgarsvæðinu hafa mælst annað hvort slæm eða miðlungs á nokkrum stöðum í dag. Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur er ástæða mengunarinnar ekki svifryk eins og svo oft áður heldur brennisteinsvetni sem kemur frá virkjunum á Hellisheiði og Nesjavöllum og köfnunarefnisdíoxíðs sem kemur eingöngu frá útblæstri bensín- og díselbifreiða.
„Þetta er því miður eitthvað sem við bjuggumst við að gæti gerst miðað við veðrið sem er í kortunum,“ segir Svava S. Steinarsdóttir, heilbrigðisfulltrúi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, í samtali við Fréttablaðið í dag.
Svava segir að í dag sé það efni sem helst sé að valda vanda eins og staðan er núna sé niturdíoxíð, og þau hafi minni áhyggjur af svifryki enn sem komið er.
„Það sem er óvænt er að brennisteinsvetni (h2s) er hátt, en það kemur frá útblæstri jarðhitavirkjananna á Hellisheiði og á Nesjavöllum,“ segir Svava. En þar er gufu og vatni dælt upp og samhliða því losnar mikið af gasi.
„Það er brennisteinsvetnið sem mælist í mestu magni í þessa stundina,“ segir Svava.
Á myndinni hér að neðan má sjá hvar loftgæði mælast hvað verst í borginni samkvæmt nýjustu mælingum en fyrr í dag mældust þau einnig slæm í Fossaleyni í Reykjavík og Dalsmára í Kópavogi.

Mengun frá virkjunum á Nesjavöllum og Hellisheiði
Svava segir að ástæða þess að loftgæðin mælist verri hér vegna brennisteinsvetnisins en hjá virkjunum sjálfum sé að það helst í einum strók í stað þess að dreifa sér.
„Rannsóknir hafa sýnt að stundum hreinlega skríður strókurinn fram hjá mælistöðvunum. Það læðist að mér sá grunur þegar ég kíki á mælingarnar að þetta gæti verið að koma meira frá Nesjavöllum í dag en frá Hellisheiðinni. En það er erfitt að segja til um það, það eru báðar virkjanirnar sem leggja til þessa mengun,“ segir Svava.
Gildi brennisteinsvetnis sem mælast við stöðvarnar í Reykjavík eru á milli 52 og 95 míkrógrömm per rúmmetra en Svava segir að eitrunaráhrif vegna brennisteinsvetnis komi þó ekki fram fyrr en við 15 þúsund míkrógrömm per rúmmetra.
„Þannig við erum að fá efnið í miklu lægri styrk í Reykjavík heldur en telst hættulegt, en auðvitað er alltaf óæskilegt að þessi efni séu í meira í magni. Þau eru tilkynningarskyld þegar þau fara yfir 150 míkrógrömm per rúmmetra í þrjár klukkustundir samfellt. Einnig má hlaupandi meðaltal 24 klukkustunda ekki fara yfir 50 míkrógrömm per rúmmetra,“ segir Svava.
Hún segir að hreinsivirki sé að finna við stöðina á Hellisheiði sem taki um 80 prósent af útblæstri brennisteinsvetni en ekkert slíkt sé að finna við stöðina á Nesjavelli.
Kokteiláhrif loftmengunar
Hún segir vandann þó vera meiri þegar magn brennisteinsvetnis eykst samhliða aukningu annarra mengandi efna í loftinu, eins og köfnunarefnisdíoxíðs.
„Það er það sem hefur gerst í dag og þá geta auðvitað þau sem eru viðkvæm í öndunarfærum fundið fyrir meiri áhrifum, svokölluð kokteiláhrif,“ segir Svava.
Bæði efnin valda ertingu í öndunarfærum og bendir Svava á að köfnunarefnisdíoxíðs myndast eingöngu í lofti á höfuðborgarsvæðinu vegna útblásturs bifreiða.
„Það er engin önnur uppspretta, enginn iðnaður og ekkert annað sem er að losa þetta mengunarefni. Eina leiðin til að draga úr óæskilegum áhrifum þessarar mengunar er að draga úr umferð. Það er ekki hægt að sópa þessu burt,“ segir Svava að lokum.

Mikilvægt að nýta sér vistvæna samgöngumáta
Greint var frá því í gær að samkvæmt veðurspám næstu daga sé gert ráð fyrir þurru og hæglátu veðri á höfuðborgarsvæðinu og í slíkum aðstæðum geta aukist líkur á loftmengun vegna köfnunarefnisdíoxíðs (NO2). Köfnunarefnisdíoxíðmengun kemur frá útblæstri bifreiða og er mest á morgnana og í eftirmiðdaginn þegar umferð er mest. Síðastliðinn sunnudag og mánudag mældist styrkur köfnunarefnisdíoxíðs hár við stórar umferðaræðar.
Köfnunarefnisdíoxíð veldur ertingu í lungum og öndunarvegi. Þeir sem eru viðkvæmir fyrir í öndunarfærum, og börn ættu að forðast útivist í lengri tíma og takmarka áreynslu í nágrenni stórra umferðargatna. Besta leiðin til þess að reyna að bregðast við loftmengun er að fólk nýti sér vistvæna samgöngumáta, eins og að hjóla, ganga eða taka Strætó á milli staða.
Hægt er að fylgjast með styrk köfnunarefnisdíoxíðs (NO2) og annarra mengandi efna á síðunni loftgaedi.is og má þar sjá kort yfir mælistaði.