Lög­reglunni á Suður­nesjum barst í vikunni til­kynning um að veski sem fannst úti í Kefla­vík hafi inni­haldið kókaín og kamagra gel, sem er stinningar­lyf í fljótandi formi. Við leit lög­reglu fundust skil­ríki í veskinu og var haft sam­band við eig­anda veskisins.

Að­spurður sagði maðurinn ekki kannast við fíkni­efnin, að hann notaði ekki slík efni og sam­þykkti sýna­töku. Niður­stöður sýna­tökurnar sýndu þó að maðurinn hafði í raun neytt kókaíns.

Við hefð­bundið eftir­lit lög­reglu á fíkni­efnum í um­dæminu fundust um tuttugu grömm af kanna­bisi á heimili. Þá fram­vísaði einnig far­þegi í bíl, sem stöðvaður var við eftir­lit í vikunni, kanna­bis sem hann var með á sér.

Tveir aðilar voru fluttir með sjúkra­bíl á Heil­brigðis­stofnun Suður­nesja í vikunni eftir slys. Þá hafði liðið yfir annan þeirra og hann lent á gólfinu með þeim af­leiðingum að hann fékk skurð á hökuna sem blæddi mikið úr. Hinn hafði mis­stigið sig illa við vinnu og talið var að hann hefði slitið hásin.