Mikill skortur er á kókaíni á landinu í kjölfar nær algerrar stöðvunar farþegaflutninga til landsins. Heimildarmenn Fréttablaðsins kunnugir fíkniefnamarkaðinum segja nær allar birgðir búnar hjá helstu birgjum. Stórkaupmenn, sem kaupi að jafnaði nokkur hundruð grömm í einu af innflytjendum, ætluð til smásölu, komi alls staðar að lokuðum dyrum. Þeir muna ekki annað eins ástand á markaðinum.

„Það er búið að grafa allar holur og það er allt búið,“ varð einum viðmælanda Fréttablaðsins að orði.

Þeir birgjar sem einhvern lager eigi haldi að sér höndum í von um að verðið rjúki upp. Efni í verri gæðum sem illa gekk að selja áður en landið lokaðist hafa einnig selst upp og neytendur hljóti að vera farnir að finna fyrir bæði hærra verði og minni gæðum.

Ekki er eins mikill skortur á amfetamíni enn sem komið er, en einhver framleiðsla á því hefur farið fram hér á landi undanfarin ár. Enginn hörgull er heldur á kannabisefnum en lítið sem ekkert hefur verið flutt inn af þeim undanfarin ár og stendur ræktun hér innanlands undir eftirspurn af þeim.

Þótt ólögleg vímuefni séu einnig flutt eftir öðrum leiðum til landsins en með farþegum efast menn um að þær innflutningsleiðir geti annað eftirspurninni.

40 kíló voru haldlögð af kókaíni á síðasta ári samkvæmt bráðabirgðartölum ríkislögreglustjóra í upphafi árs. Þau voru 2,6 árið 2014. Grammið kostaði 13.700 krónur samkvæmt tölum tölum SÁÁ
Fréttablaðið/Getty

Þeir fáu sem komi flugleiðina frá Evrópu hafi ekki hætt á að hafa neitt með sér, enda mjög fáir í vélunum og engin leið að hverfa í fjöldann. Eftir því sem einangrun landsins dragist á langinn muni markaðurinn þó, líkt og áður, finna nýjar leiðir til innflutnings.

Samkomubanni fylgir þó einnig samdráttur í tækifærisneyslu og að því leyti hefur eftirspurn einnig dregist saman. Bæði eru þeir í neysluhléi sem neyta reglulega kókaíns samhliða skemmtanalífinu og „bissnessmenn sem hafa verið að nota tvisvar til þrisvar í viku eru hættir að versla og eru bara hjá fjölskyldum sínum“ eins og heimildarmaður blaðsins orðaði það.

Auk kókaíns er einnig farið að bera á skorti morfínskyldra lyfja sem flutt eru ólöglega til landsins.

Starfsfólk í heilbrigðis- og félagsþjónustu sem Fréttablaðið ræddi við segja verst stöddu neytendurna finna fyrir þessu og ótta gæti meðal þeirra, bæði vegna skortsins og erfiðleika með að útvega efni komi til sóttkvíar eða annarrar einangrunar.

Skorturinn er ekki eingöngu á Íslandi heldur einnig víða í Evrópu enda einangrun og samdráttur í farþegaflutningum ekki bundinn við Ísland. Í svari lögreglu við fyrirspurn Fréttablaðsins segir að takmarkaðir fólksflutningar hafi áhrif á flutning fíkniefna milli landa og heimsálfa. Það sé þó tímabundið. Vari það ástand lengi finni hinn ólöglegi markaður aðrar leiðir til að anna eftirspurn.