Guðni Guðbergsson, sérfræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun, segir Koi fiskinn sem hefur komið sér fyrir í Elliðaám vel geta þrifist þar. Það væri hins vegar óæskilegt ef slíkir fiskar gerðu sig heimkomna þar enda ekki falist eftir frekari fjölbreytni í ám landsins.
Veiðimaður kom auga á gullfiskinn knáa í gær og sagði bersýnilegt að laxarnir í ánni lúffuðu þegar þessi gullni bróðir þeirra kom aðvífandi að legustað þeirra.
Reykur getur boðað eld
Vera fisksins í ánni er þó varhugaverð að mati Guðna þar sem ekki er víst hvaða áhrif hún geti haft á lífríki þar.
„Nú er ekki endilega hægt að hrópa eldur, eldur þó það kvikni í eldspýtu,“ segir Guðni sem telur einn fiskur í sjálfu sér ekki vera mikla ógn. „En ef það eru fiskar komnir út í hina villtu náttúru þá er það nú stundum þannig að þar sem er reykur er eldur.“
Gæti fjölgað sér
Koi fiskar geta orðið mjög stórir og eru þekktir fyrir langlífi en sumir hverjir ná yfir hundrað ára aldri. „Þeir geta alveg tímgast hér,“ segir Guðni. Straumvatn er ekki þeirra kjörlendi en í lygnum og vötnum væri slíkt hægt og tekur sérfræðingurinn Elliðavatn og Þingvallavatn sem dæmi.
„Það yrðu breytingar á líffræðilegri fjölbreytni á Íslandi ef framandi tegund eins og þessi færi að fjölga sér og maður veit ekkert hvað hún gæti borið með sér eða hvaða áhrif hún hefur,“ ítrekar Guðni.
Fimm tegundir feikinóg
Á Íslandi lifa frá náttúrunnar hendi fimm tegundir fiska í ferskvatni. Myndi Koi fiskurinn ná fótfestu yrðu þær sex en nýliðinn í vötnunum yrði flokkaður sem „alien“ eða framandi tegund.
Líklegt þykir að fiskurinn sem um ræðir hafi verið gæludýr áður en hann rataði í Elliðaá en það tíðkast að hafa slíka fiska í tjörnum bæði í lystigörðum og heimahúsum.
„Það er mjög óæskilegt að þessir fiskar fari út í íslenska náttúru og annað hvort hafi þeir sloppið eða þá að einhver hefur gert þetta annað hvort af skömmum sínum eða óvitaskap að missa þennan fisk þarna út.“
Framandi tegundir í Mývatni
Til séu dæmi um að framandi tegundir hafi haslað sér völl í náttúrunni og nefnir Guðni þar bæði plöntur og snigla sem hafðir eru í fiskabúrum. „Það er fiskabúrasnigill sem lifir í Mývatni núna og þess háttar sniglar hafa fundist í Kópavogslæknum og Fossvogslæk.“ Ástæða þess er að fólki losi fiskabúr á slíkum stöðum.
Það megi þó alls ekki sleppa fiskum í ár. „Það er í fyrsta lagi ólöglegt og í öðru lagi óæskilegt og hefur áhrif á íslenska náttúru sem er eitthvað sem fæstir vilja.“