Guðni Guð­bergs­son, sér­fræðingur hjá Haf­rann­sóknar­stofnun, segir Koi fiskinn sem hefur komið sér fyrir í Elliða­ám vel geta þrifist þar. Það væri hins vegar ó­æski­legt ef slíkir fiskar gerðu sig heim­komna þar enda ekki falist eftir frekari fjöl­breytni í ám landsins.

Veiði­maður kom auga á gull­fiskinn knáa í gær og sagði ber­sýni­legt að laxarnir í ánni lúffuðu þegar þessi gullni bróðir þeirra kom að­vífandi að legu­stað þeirra.

Reykur getur boðað eld

Vera fisksins í ánni er þó var­huga­verð að mati Guðna þar sem ekki er víst hvaða á­hrif hún geti haft á líf­ríki þar.

„Nú er ekki endi­lega hægt að hrópa eldur, eldur þó það kvikni í eld­spýtu,“ segir Guðni sem telur einn fiskur í sjálfu sér ekki vera mikla ógn. „En ef það eru fiskar komnir út í hina villtu náttúru þá er það nú stundum þannig að þar sem er reykur er eldur.“

Gæti fjölgað sér

Koi fiskar geta orðið mjög stórir og eru þekktir fyrir lang­lífi en sumir hverjir ná yfir hundrað ára aldri. „Þeir geta alveg tímgast hér,“ segir Guðni. Straum­vatn er ekki þeirra kjör­lendi en í lygnum og vötnum væri slíkt hægt og tekur sér­fræðingurinn Elliða­vatn og Þing­valla­vatn sem dæmi.

„Það yrðu breytingar á líf­fræði­legri fjöl­breytni á Ís­landi ef framandi tegund eins og þessi færi að fjölga sér og maður veit ekkert hvað hún gæti borið með sér eða hvaða á­hrif hún hefur,“ í­trekar Guðni.

Fimm tegundir feiki­nóg

Á Ís­landi lifa frá náttúrunnar hendi fimm tegundir fiska í fersk­vatni. Myndi Koi fiskurinn ná fót­festu yrðu þær sex en ný­liðinn í vötnunum yrði flokkaður sem „alien“ eða framandi tegund.

Lík­legt þykir að fiskurinn sem um ræðir hafi verið gælu­dýr áður en hann rataði í Elliða­á en það tíðkast að hafa slíka fiska í tjörnum bæði í lysti­görðum og heima­húsum.

„Það er mjög ó­æski­legt að þessir fiskar fari út í ís­lenska náttúru og annað hvort hafi þeir sloppið eða þá að ein­hver hefur gert þetta annað hvort af skömmum sínum eða ó­vita­skap að missa þennan fisk þarna út.“

Framandi tegundir í Mý­vatni

Til séu dæmi um að framandi tegundir hafi haslað sér völl í náttúrunni og nefnir Guðni þar bæði plöntur og snigla sem hafðir eru í fiska­búrum. „Það er fiska­búra­snigill sem lifir í Mý­vatni núna og þess háttar sniglar hafa fundist í Kópa­vogs­læknum og Foss­vogs­læk.“ Á­stæða þess er að fólki losi fiska­búr á slíkum stöðum.

Það megi þó alls ekki sleppa fiskum í ár. „Það er í fyrsta lagi ó­lög­legt og í öðru lagi ó­æski­legt og hefur á­hrif á ís­lenska náttúru sem er eitt­hvað sem fæstir vilja.“