Stjórnvöld í Ástralíu hafa sett kóalabirni á lista yfir dýr í útrýmingarhættu í austanverðu landinu vegna mikillar fækkunar í stofninum.

Pokadýrið dafnaði áður á svæðinu en vegna skógarhöggs, skógarelda, þurrkatíðar og sjúkdóma hefur þeim fækkað mjög hratt á skömmum tíma. Skógareldar sumrin 2019 og 2020 drápu 5 þúsund dýr eða fjórðung allra kóalabjarna í Nýju Suður-Wales.

Er dýrategundin komin á lista yfir dýr í útrýmingarhættu í fylkjunum Queensland, Nýju Suður-Wales og á höfuðborgarsvæðinu.

„Það að setja tegundina á listann veitir meiri forgang þegar kemur að verndun,“ sagði Sussan Ley, umhverfisráðherra Ástralíu við blaðamenn í dag.

Sagði hún að unnið væri að áætlun um betri verndun á svæðum kóalabjarna og að landnýting taki mið af áhrifum á stofninn.

Talið er að um 50 þúsund kóalabirnir séu villtir í Ástralíu, verstu spár gera ráð fyrir að þeir verði útdauðir í Nýju Suður-Wales fyrir árið 2050.