Hinn enski Bob Higgins, fyrrverandi yngriflokkaþjálfari í knattspyrnu, hefur verið dæmdur í 24 ára og þriggja mánaða fangelsi fyrir að hafa brotið á ungum drengjum um árabil.

Higgins, sem er í dag 66 ára, var dæmdur fyrir að hafa misnotað 24 drengi, en flestir þeirra voru í læri hjá honum hjá ensku knattspyrnuliðunum Southampton FC og Peterborough United.

Brotin eru sögð hafa átt sér stað á 25 ára tímabili, frá 1971 til 1996. Peter Crabtree, dómari við Winchester-dómstólinn, hvar Higgins var dæmdur, fór ófögrum orðum yfir þjálfarann fyrrverandi er hann las upp niðurstöðu dómsins.

Þá las Dean Radford, en Higgins braut á honum, upp tilfinningaríka ræðu fyrir hönd fórnarlambanna fyrir dómi. Þar sagði Radford að leikmennirnir hefðu litið á hann sem föðurlega fyrirmynd.

Þeir hafi verið „hinir óheppnu“ sem féllu í hræðilega gildru Higgins sem braut á þeim og skildi eftir sálarör sem seint, ef nokkurn tímann, munu gróa.

Crabtree dómari sagði Higgins ekki hafa sýnt nein merki þess að hann iðraðist. „Þér héldu að þú værir lykillinn að framtíð þeirra,“ var meðal þess sem hann sagði.

Frétt BBC um málið.