Lög­reglu­stjórinn á Suður­nesjum, Ólafur Helgi Kjartansson, er sagður hafa sært blygðunar­kennd starfs­fólks eftir að hann prentaði út klúra texta í sam­eigin­legum prentara á lög­reglu­stöðinni. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Um­rætt at­vik á að hafa átt sér stað í byrjum maí á lög­reglu­stöðinni við Brekku­stíg í Njarð­vík. Textinn var hluti af lengra skjali, en pappírinn í prentaranum kláraðist áður en prentun lauk. Svo varð að hluti textans birtist næsta starfs­manni sem átti við prentarann. Ekki leið á löngu þar til at­vikið var á vit­orði allra á stöðinni.

Trúnaðar­manni barst í kjöl­farið erindi frá starfs­manni sem þótti ó­við­eig­andi að tölvu­búnaður em­bættisins skyldi brúkaður til slíkra erinda. Erindi starfs­mannsins hafnaði síðan í dóms­mála­ráðu­neytinu.

Særði blygðunar­kennd starfs­manna

Sam­kvæmt heimildum RÚV hefur Ólafur Helgi einnig átt það til að hafa fata­skipti fyrir opnum tjöldum á skrif­stofu sinni og hafi at­hæfið sært blygðunar­kennd starfs­fólksins.

Ás­laug Arna Sigur­björns­dóttir dóms­­mála­ráð­herra hefur lagt til við Ólaf Helga að hann hætti störfum sem lög­­reglu­­stjóri. Kvartanir vegna fram­göngu Ólafs í garð tveggja starfs­manna eru á borði ráð­herra.

Ein­eltis­mál í rann­sókn

Ekki er ýkja langt síðan í ljós kom að þrír yfir­menn hjá lög­­reglunni á Suður­­nesjum hafa verið í um mánaðar­löngu veikinda­­leyfi vegna sam­­skipta­örðug­­leika innan em­bættisins. Um er að ræða að­­stoðar­sak­­sóknara, mann­auðs­­stjóra og yfir­­lög­­fræðing em­bættisins.

Tveir starfs­­menn em­bættisins kvörtuðu til Ólafs vegna meints ein­eltis af hálfu Öldu Hrannar Jóhanns­dóttur yfir­­lög­­fræðings og Helga Þ. Kristjáns­­sonar mann­auðs­­stjóra í byrjun júní.

Frétta­blaðið hefur verið í sam­bandi við fjölda fyrr­verandi og nú­verandi starfs­manna hjá em­bættinu vegna sam­­skipta­erfið­­leika innan em­bættisins síðustu mánuði. Ljóst er að ekki eru öll kurl komin til grafar hjá em­bættinu.