„Klukku­eft­ir­litið virk­ar sem van­­traust á störf okk­ar kenn­ara og er í and­­stöðu við sjálf­­stæð vinnu­­brögð og sveigj­an­­leg­an vinnu­­tíma kenn­ara,“ segir Helga Þórðar­dóttir, kennari og vara­borgar­full­trúi Flokks fólksins, í að­sendri grein í Morgun­blaðinu í dag.

Til­lögu um að grunn­skóla­kennarar þyrftu ekki lengur að nota stimpil­klukku í starfi var vísað frá í borgar­ráði í síðustu viku. Helga segir að þar með hafi allir flokkar í meiri­hlutanum svikið kosninga­lof­orð sín.

Þurfti ekki að stimpla sig inn

Helga hefur starfað sem grunn­skóla­kennari í rúm 40 ár og bendir hún á að í tæp 30 ár hafi hún starfað sem kennari án þess að þurfa að stimpla sig inn eða út af vinnu­stað. Það hafi gengið ljómandi vel og hún getað farið heim þegar kennslu lauk og undir­búið næsta kennslu­dag þegar það hentaði henni og fjöl­skyldu­lífinu.

„Þar sem ég á fjög­ur börn hentaði kvöld­vinna best, þ.e. þegar börn­in voru sofnuð,“ segir hún.

Auð­veld kosning fyrir hana

Helga bendir á að fyrir borgar­stjórnar­kosningarnar hafi Kennara­fé­lag Reykja­víkur haldið öflugan fram­boðs­fund í Breið­holts­skóla sem haldinn var 9. maí. Þar hafi for­maður fé­lags­ins spurt fram­bjóð­end­ur nokk­urra já- eða nei-spurn­inga í lok fund­ar.

„Ein spurn­ing­in sem við fram­bjóð­end­ur feng­um var hvort við vær­um til­­bú­in að leggja niður stimp­il­­klukku í grunn­­skól­um Reykja­vík­ur. Það er skemmst frá því að segja að all­ir flokk­ar réttu upp hönd og sam­þykktu að af­­nema ætti stimp­il­­klukk­una. Kosn­ing­in um stimp­il­­klukk­una var tek­in upp á mynd­band sem hef­ur verið birt,“ segir Helga og bætir við að kosningin hafi verið auð­veld fyrir hana af framan­greindum á­stæðum.

Á­nægð með við­brögðin

Helga segir að það hafi verið mikið gleði­efni fyrir hana að fá tæki­­færi til að bera upp til­­lögu um að af­­nema stimp­il­­klukk­una úr Vinnu­­stund á sín­um fyrsta borg­ar­­stjórn­ar­fundi þann 6. sept­em­ber.

„Ég var nokkuð á­nægð með við­brögð borg­ar­full­­trúa á þeim fundi þar sem all­ir borg­ar­full­­trú­ar nema full­­trúi Vinstri-grænna sam­þykktu að vísa til­­lög­unni í borg­ar­ráð,“ segir Helga. Þegar til­lagan var loks tekin til af­greiðslu á borgar­ráðs­fundi þann 26. janúar síðast­liðinn hafi hún verið felld og allir flokkar skyndi­lega gleymt kosninga­lof­orði sínu.

„Full­­trú­ar Sam­­fylk­ing­ar, Við­reisn­ar, Vinstri-grænna, Pírata og Fram­­sókn­ar­­flokks­ins lögðust all­ir gegn því að stimp­il­­klukka væri af­num­in þvert gegn því sem þeir höfðu lofað fyr­ir kosn­ing­ar.“

Gríðar­leg von­brigði

Helga segir að Flokkur fólksins hafi lagt ríka á­herslu á að þessi breyting yrði gert í sam­ráði við Kennara­fé­lag Reykja­víkur. Því hafi von­brigðin verið gríðar­leg að meiri­hlutinn skyldi ekki fá um­sögn frá kennara­fé­laginu heldur ein­göngu um­sögn frá mann­auðs- og starfs­um­hverfis­sviði Reykja­víkur­borgar.

„Hvar er sam­ráð borg­ar­full­­trúa við kenn­ara? Kenn­ar­ar eru senni­­lega ein mik­il­­væg­asta stétt þjóð­fé­lags­ins sem skap­ar grund­­völl að vel menntuðu starfs­­fólki fyr­ir­­tækja fram­tíðar­inn­ar sem munu bera uppi það vel­­ferðar­sam­­fé­lag sem við öll vilj­um byggja. Meiri­hlut­inn sýn­ir kenn­ur­um lít­ils­virðingu með því að bjóða þeim ekki að borðinu og eiga sam­ráð við þá.“