„Klukkueftirlitið virkar sem vantraust á störf okkar kennara og er í andstöðu við sjálfstæð vinnubrögð og sveigjanlegan vinnutíma kennara,“ segir Helga Þórðardóttir, kennari og varaborgarfulltrúi Flokks fólksins, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.
Tillögu um að grunnskólakennarar þyrftu ekki lengur að nota stimpilklukku í starfi var vísað frá í borgarráði í síðustu viku. Helga segir að þar með hafi allir flokkar í meirihlutanum svikið kosningaloforð sín.
Þurfti ekki að stimpla sig inn
Helga hefur starfað sem grunnskólakennari í rúm 40 ár og bendir hún á að í tæp 30 ár hafi hún starfað sem kennari án þess að þurfa að stimpla sig inn eða út af vinnustað. Það hafi gengið ljómandi vel og hún getað farið heim þegar kennslu lauk og undirbúið næsta kennsludag þegar það hentaði henni og fjölskyldulífinu.
„Þar sem ég á fjögur börn hentaði kvöldvinna best, þ.e. þegar börnin voru sofnuð,“ segir hún.
Auðveld kosning fyrir hana
Helga bendir á að fyrir borgarstjórnarkosningarnar hafi Kennarafélag Reykjavíkur haldið öflugan framboðsfund í Breiðholtsskóla sem haldinn var 9. maí. Þar hafi formaður félagsins spurt frambjóðendur nokkurra já- eða nei-spurninga í lok fundar.
„Ein spurningin sem við frambjóðendur fengum var hvort við værum tilbúin að leggja niður stimpilklukku í grunnskólum Reykjavíkur. Það er skemmst frá því að segja að allir flokkar réttu upp hönd og samþykktu að afnema ætti stimpilklukkuna. Kosningin um stimpilklukkuna var tekin upp á myndband sem hefur verið birt,“ segir Helga og bætir við að kosningin hafi verið auðveld fyrir hana af framangreindum ástæðum.
Ánægð með viðbrögðin
Helga segir að það hafi verið mikið gleðiefni fyrir hana að fá tækifæri til að bera upp tillögu um að afnema stimpilklukkuna úr Vinnustund á sínum fyrsta borgarstjórnarfundi þann 6. september.
„Ég var nokkuð ánægð með viðbrögð borgarfulltrúa á þeim fundi þar sem allir borgarfulltrúar nema fulltrúi Vinstri-grænna samþykktu að vísa tillögunni í borgarráð,“ segir Helga. Þegar tillagan var loks tekin til afgreiðslu á borgarráðsfundi þann 26. janúar síðastliðinn hafi hún verið felld og allir flokkar skyndilega gleymt kosningaloforði sínu.
„Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Vinstri-grænna, Pírata og Framsóknarflokksins lögðust allir gegn því að stimpilklukka væri afnumin þvert gegn því sem þeir höfðu lofað fyrir kosningar.“
Gríðarleg vonbrigði
Helga segir að Flokkur fólksins hafi lagt ríka áherslu á að þessi breyting yrði gert í samráði við Kennarafélag Reykjavíkur. Því hafi vonbrigðin verið gríðarleg að meirihlutinn skyldi ekki fá umsögn frá kennarafélaginu heldur eingöngu umsögn frá mannauðs- og starfsumhverfissviði Reykjavíkurborgar.
„Hvar er samráð borgarfulltrúa við kennara? Kennarar eru sennilega ein mikilvægasta stétt þjóðfélagsins sem skapar grundvöll að vel menntuðu starfsfólki fyrirtækja framtíðarinnar sem munu bera uppi það velferðarsamfélag sem við öll viljum byggja. Meirihlutinn sýnir kennurum lítilsvirðingu með því að bjóða þeim ekki að borðinu og eiga samráð við þá.“