Undanfarna daga hefur borið á því að Íslendingar séu farnir að hamstra mat og ýmsar nauðsynjavörur enda upplifun margra að óvissutímar séu framundan. Framkvæmdastjóri Papco, sem framleiðir meðal annars klósettpappír og flytur inn hanska, spritt og margskonar hreinlætisvörur, staðfestir að mikil söluaukning hafi verið á vörum fyrirtækisins. Sérstaklega er klósettpappírinn vinsæll og virðist sem svo að hamfaraskeiningaræði hafi runnið á þjóðina.

„Ég ekki til neinar sérstakar skýringar á þessu en þetta minnir að mörgu leyti á viðbrögð almennings í efnahagshruninu en þá rauk klósettpappírinn líka út,“ segir Þórður Kárason, framkvæmdastjóri Papco.Þrátt fyrir að vörur fyrirtækisins seljist vel þá stefnir ekkert í að skortur verði á vörunum í bráð. „Við erum til dæmis að fá stóra sendingu af spritti á næstu dögum,“ segir Þórður. Innflutningurinn sé þó strembnari en oft áður því víða er farið að bera á takmörkunum.

„Sem dæmi er núna óheimilt að flytja heilbrigðisvörur út úr Þýskalandi. En þó að verkefnið sé flóknara þá erum við með marga birgja og sjáum ekki fram á vöruskort,“ segir Þórður.

Hermann Stefánsson hjá Ísam tekur í sama streng. Fyrirtækið flytur inn margskonar vörur auk þess sem dótturfyrirtæki þess, ORA, framleiðir ýmsar vörur með langt geymsluþol.

„Við erum heildsalar og finnum því ekki jafnhratt fyrir breytingunum en það er alveg ljóst að það er talsverð söluaukning hjá okkur,“ segir Hermann.Hann segir að það gildi um flestar vörur fyrirtækisins en þó sérstaklega vörur með langt geymsluþol. „Það eru sérstaklega vörur sem minnst var á í innkaupalista Almannavarna fyrir fólk í sóttkví. Til dæmis fiskibollur í dós, síld og kex,“ segir Hermann. Að hans sögn er það eitt dæmi þess að Íslendingar taki ástandið varlega og fylgi fyrirmælum yfirvalda í hvívetna.