Klofningur er meðal Sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi í borgarlínumálinu. Endanleg ákvörðun um þátttöku sveitarfélagsins í uppbyggingu borgarlínu verður tekin á bæjarstjórnarfundi í dag. Magnús Örn Guðmundsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, forseti bæjarstjórnar og formaður bæjarráðs, hefur lagt fram bókun gegn aðkomu Seltjarnarnesbæjar að verkefninu.

Sjálfstæðisfélag Seltirninga birti í dag bókun á Facebook-síðu sinni þar sem félagið kallar eftir því að fulltrúar flokksins skrifi ekki undir samninga á fundinum í dag. Um er að ræða samþykki Seltjarnarnesbæjar til að leggja 16 milljónir í borgarlínuverkefnið á næstu tveimur árum.

Í bókuninni segir að undirritun samninga um borgarlínu sé á skjön við stefnuskrá flokksins. Þá segir í lok tilkynningarinnar: „Afar mikilvægt er að staðið sé við gefin loforð við kjósendur flokksins. Ákvörðun um þátttöku Seltjarnarnesbæjar í Borgarlínuverkefninu ber vott um ábyrgðarleysi gagnvart skattfé.“

Bókun stjórnar Sjálfstæðisfélags Seltirninga. Stjórn Sjálfstæðisfélags Seltirninga tekur undir með Magnúsi Erni...

Posted by Sjálfstæðisfélag Seltirninga on Wednesday, June 12, 2019

Kristján Hilmir Baldursson, formaður Sjálfstæðisfélags Seltirninga, sagðist í samtali við Fréttablaðið vita til þess að skiptar skoðanir væru meðal fulltrúa flokksins um málið „Við viljum í raun hvetja til þess að ákvörðun um málið verði tekin í takt við stefnuskrá okkar sem var gerð fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar og að við stöndum við þau orð sem við settum þar fram,“ segir Kristján. „Okkur finnst við þarna vera að skrifa undir auðan tékka og við vitum ekkert fyrir hverju.“

Ætla má að Magnús Örn kjósi gegn undirritun samninga í dag en ekki náðist í hann við vinnslu fréttarinnar. Í samtali við Fréttablaðið sagði Sigrún Edda Jónsdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hins vegar að hún væri fylgjandi málinu og myndi kjósa með undirritun. Bókun stjórnar Sjálfstæðisfélags Seltirninga, sem hún kvaðst þó enn ekki hafa séð, breytir ekki afstöðu hennar í málinu.

Í samtali við Fréttablaðið staðfesti Karl Pétur Jónsson, bæjarfulltrúi Viðreisnar, að hann ásamt bæjarfulltrúum Samfylkingarinnar, Sigurþóru Bergsdóttur og Guðmundi Ara Sigurjónssyni muni kjósa með málinu í dag. Því er ljóst að atkvæði Sigrúnar dugir til að koma málinu í gegn, en aðeins eru sjö bæjarfulltrúar á Seltjarnarnesi. Því skiptir ekki máli hvernig samflokksmenn Magnúsar og Sigrúnar greiða atkvæði í dag en ekki náðist í þau Ásgerði Halldórsdóttur, bæjarstjóra Seltjarnarnesbæjar, og Bjarna Torfa Álfþórsson við vinnslu fréttarinnar.