Sævar Reykjalín, formaður foreldrafélags Kelduskóla, segir aðstandendur Kelduskóla ekki af baki dottnir þrátt fyrir að tillaga um lokun Kelduskóla hafi verið samþykkt á fundi skóla- og frístundaráð Reykjavíkurborgar í dag.

Sævar segir reynslu þeirra við samráðshóp vera sú að hvorki sé hlustað á foreldra né börn. Tillagan verður tekin fyrir á fundi á þriðjudaginn í næstu viku og verður þar endanlega samþykkt.

„Börnin þekkja starfsemi skólans margfalt betur en Skúli Helgason.“

Foreldrar Kelduskóla og Vættaskóla mótmæltu í morgun fyrirhugaðri lokun með því að tefja umferð í morgunsárið. Sævar segir málið snúast ekki einungis um Kelduskóla Korpu, heldur talsvert fleiri skóla og nemendur þeirra í Grafarvogi.

„Þetta eru 820 börn sem verða fyrir áhrifum á þessum breytingum. Fullt af fólki veit ekki einu sinni af því að þeirra börn verði færð til,“ segir Sævar.

Býst ekki við samgöngubótum

„Í þessu máli er farið ódýrustu og lélegustu leiðina, eins og alltaf þegar borgin á í hlut. Ekkert verður gert varðandi samgöngubætur í líkingu við undirgöng eins og lofað hefur verið. Skólabúnaður verður ekki endurnýjaður, eins og þarf að gera fyrir þennan unglingaskóla. Auk þess er hugtakið nýsköpunarskóli algjörlega óskilgreint í þessu samhengi,“ segir Sævar en í tilkynningu frá skólaráði í dag kemur fram að Víkurskóli verði sameinaður unglingaskóli þar sem lögð verði áhersla á „hugmyndafræði nýsköpunar, frumkvöðlafræði og skapandi hugsun í öllum starfsháttum.“

Klofningur innan meirihlutans

Sævar segir greinilegt að klofningur sé meðal meirihlutans varðandi ákvörðun skólaráðs um að loka Kelduskóla.

„Ég fékk áhugaverðan tölvupóst úr herbúðum Pírata. Það virðist greinilega vera klofningur í þessu máli og hvernig að því sé staðið. Einhverjir í hópi Pírata hafa skilning á því að það sé ekki verið að beita lýðræðislegum vinnubrögðum, hvað þá hlustað á raddir nemenda, núverandi og fyrrverandi,“ segir Sævar í samtali við Fréttablaðið.

„Kennarar í Kelduskóla, foreldrar og börnin eru á móti því að loka skólanum. Börnin þekkja starfsemi skólans margfalt betur en Skúli Helgason,“ segir Sævar og bætir við að foreldrar trúi ekki að flokkar sem tali um íbúalýðræði og að færa völd til íbúanna þurfi að lifa við þessar breytingar að þeir muni láta Samfylkinguna draga sig á asnaeyrunum.