Áslaug Thorlacius myndlistarmaður og fjölskylda hennar lögðu Blönduósbæ í Hæstarétti í gær er dómi bæði héraðsdóms og Landsréttar var snúið.

Blönduósbær vildi rifta lóðarleigusamningi við fjölskylduna og taka jörð hennar, Kleifar, eignarnámi. Taldi Hæstiréttur málatilbúnað ekki réttan og vísaði málinu frá héraðsdómi.

Fjölskyldan og sveitarfélagið hafa í um áratug deilt um jörðina sem liggur að Blöndu sunnan sjúkrahússins á Blönduósi. Erfðafestuleigusamningur var gerður árið 1932 og byggingarbréf var samþykkt árið 1951. Byggingarbréfið er um 12 hektara jarðarinnar en jörðin í heild sinni er um 18 hektarar.

Samkvæmt Hæstarétti vildi Blönduósbær taka til sín öll mannvirki og alla 18 hektarana og byggði á því að ekki hefði verið farið eftir efndum byggingarbréfsins. Hæstiréttur segir það af og frá að bærinn geti tekið alla 18 hektarana vegna vanefnda í byggingarbréfi sem aðeins er um hluta jarðarinnar. Vegna þessa misræmis í málatilbúnaði Blönduósbæjar verður að vísa málinu frá og þarf bæjarfélagið að greiða fjölskyldunni þrjár milljónir króna í lögfræðikostnað á öllum dómstigum.

„Við erum afar ánægð með þessar málalyktir. Við erum enn að rýna dóminn en okkur sýnist við hafa unnið fullnaðarsigur í þessu máli,“ segir Áslaug. „Þetta hefur tekið tíma og orku og okkur þykir ánægjulegt að nú sé því lokið og við getum farið að hefja uppbyggingu.“

Áslaug Thorlacius og maður hennar, Finnur Arnar Arnarson, fengu menningarverðlaun DV vegna menningarlífs á Kleifum.

Valdimar Hermannsson, bæjarstjóri Blönduósbæjar, segir engar ákvarðanir liggja fyrir um hver næstu skref bæjarins séu í málinu. Nú verði dómurinn skoðaður og næstu skref ákveðin í rólegheitum.

„Það er enginn ágreiningur um að bærinn á landið en rétturinn til nýtingar landsins gengur í erfðir samkvæmt samningi þar um,“ segir Valdimar. „Við höfum verið að taka til okkar bletti hér og þar í kringum bæinn og við munum bara skoða þetta mál rólega og af yfirvegun.“